133. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2007.

þingstörfin fram undan.

[11:13]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Fyrir þessum fundi liggja 80 dagskrármál. Á borðum og í hillum í hliðarherbergi eru allir rekkar að fyllast, rúma ekki þau mál sem verið er að skófla inn á borðin og inn í þingsalinn, en ég vek athygli hæstv. forseta þingsins á því að samkvæmt starfsáætlun á þinghaldi að ljúka í dag. Nú viljum við fá botn í þessi mál.

Á þinghaldi að ljúka í dag eða á að framlengja þinghaldið?

Ég vek einnig athygli á því að sérnefnd um stjórnarskrá Íslands hefur setið að störfum á maraþonfundum til þess að ræða þær tillögur sem formenn stjórnarflokkanna báru inn á borð Alþingis fyrir fáeinum dögum. Mér býður í grun að hér sé á ferðinni pólitískur loddaraleikur, sviðsettur af Framsóknarflokknum. (Gripið fram í.) Hvert verður framhald þessa máls? Við krefjumst svara frá forseta Alþingis um verkstjórnina hér á síðustu dögum þingsins, eða síðustu klukkutímum þingsins ef við eigum að taka starfsáætlun þess alvarlega. Við höfum boðið, af hálfu stjórnarandstöðunnar, að lengja þinghaldið til þess að við getum fjallað á vandaðan hátt um stjórnarskipunarlög Íslands. Við eigum að sýna stjórnarskrá lýðveldisins þá virðingu sem henni ber. Við frábiðjum okkur allan loddaraleik í þeim efnum.