133. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2007.

þingstörfin fram undan.

[11:14]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að nefndir Alþingis hafa verið afkastamiklar og eru búnar að afgreiða frá sér mörg mál sem eru komin á dagskrá og mörg þingskjöl eru komin í hliðarherbergi. Mér finnst ekkert hægt að finna að slíku, mér finnst ánægjulegt að nefndir þingsins hafi getað lokið afgreiðslu svo margra góðra mála.

Hvað varðar síðan lyktir þingstarfa er ljóst að enn er margt ógert í þinginu en ég geri ráð fyrir, og hef gert ráð fyrir, að forustumenn flokkanna og þingflokkanna og forseti Alþingis muni í dag tala saman um þau mál og kanna hvort grundvöllur er fyrir einhvers konar samkomulagi um hvernig megi ganga hér frá málum þannig að allir hafi fullan sóma af. (MÁ: Talarðu fyrir hönd forseta Alþingis?) (Gripið fram í: Hver stjórnar þinginu?)