133. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[11:35]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka formanni landbúnaðarnefndar fyrir þetta nefndarálit. Eins og kom fram við 1. umr. um málið deila menn ekki um að full þörf er á stuðningi við sauðfjárbændur og full ástæða til að veita verulega fjármuni til þess. Það er hins vegar spurning um hvernig farið er að og ég hlýt að spyrja formann landbúnaðarnefndar: Hvernig stendur á því að það Alþingi sem nú er verið að senda heim og hefur lokið kjörtíma sínum, sem var fyrir árin 2003 til vorsins 2007, á hér á síðasta degi sínum að taka til afgreiðslu fyrirkomulag stuðnings við sauðfjárbændur og samning við þá sem taka á gildi á miðju ári 2008 og gilda til ársins 2014? Er það ekki óeðlilegt að það þing sem núna er að fara heim, verður umboðslaust eftir tvo mánuði, sé að binda svo mikilvægan málaflokk til svo langs tíma í samningum í stað þess að eftirláta það nýju þingi sem kjörið verður í maí og þeirri nýju ríkisstjórn sem þá verður mynduð, þannig að hún hafi fullt forræði á jafnmikilvægum málaflokki eins og þessum? Eða er eitthvað sem rekur okkur til þess að afgreiða þetta núna eina mínútu í miðnætti?