133. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[11:42]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek alveg undir þau orð að sauðfjárræktin í landinu er gríðarlega mikilvæg til nýtingar landkosta okkar, til að tryggja öfluga búsetu vítt og breitt um landið og einnig er úrvinnsla úr sauðfjárafurðum gríðarlega mikill þáttur í matvælavinnslu okkar og tækniþróun. Einnig eru það miklir hagsmunir fyrir neytendur að eiga trygga og örugga framleiðslu og framboð á hollum matvörum, enda hefur það sýnt sig í nýlegri könnun að íslenskir neytendur leggja mikla áherslu á öflugan íslenskan landbúnað og góðar og hollar vörur sem hann framleiðir og vill eiga tryggan aðgang að þeim.

Ég tek líka undir að gera þarf samninginn með nokkrum fyrirvara því að ferlið er langt í landbúnaðinum. Þess vegna spyr ég hv. þm. Drífu Hjartardóttur: Hvers vegna var farið gegn vilja bænda með að ríkið eða ráðherra mundi áfram hafa heimild til að grípa til skipulegs útflutnings, ef á þyrfti að halda, til að tryggja öryggi framleiðslunnar, markaðarins og framtíðarhagsmuni neytenda með aðgengi að þessum vörum? Ég er með bréf, sem ég kem að í seinna andsvari mínu, sem undirstrikar vilja bænda í þessum efnum og ég spyr því hv. þingmann: Hvers vegna samninganefndin og reyndar landbúnaðarnefnd, ég lagði til í landbúnaðarnefnd að við tækjum þetta upp þar, hafnaði því að taka útflutningsskylduna inn sem heimild.