133. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[11:45]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Eitt af stærstu ágreiningsmálunum við samningsgerðina var hvort áfram skyldi vera heimild til að beita útflutningsskyldu til að tryggja öryggi markaðarins, framleiðslunnar og framboðsins til lengri tíma gagnvart neytendum. Bændum var stillt upp við vegg hvað þetta varðaði, af hálfu hins hluta samninganefndarinnar, þ.e. hluta ríkisins, var þetta eitt af skilyrðunum sem þeir eiga að uppfylla en þá töldu þeir sig samt vera með það í hendi að lagatextanum sem varðaði útflutningsskylduna yrði ekki breytt fyrr en eftir ár eða á næsta þingi. Þannig var þetta kynnt meðal bænda eins og kemur fram í bréfi sem hluti samninganefndar bænda skrifaði undir þar sem segir, með leyfi forseta:

„Í öllu kynningarferlinu var bændum greint frá þessu,“ — þ.e. að lagaákvæði varðandi útflutningsskylduna kæmi ekki inn fyrr en á næsta ári þannig að við hefðum þá eitt ár til að meta það hvort það skyldi falla út eða ekki. „Á þessum fundi voru annars vegar fulltrúar bænda og hins vegar fulltrúi landbúnaðarráðherra eða aðstoðarmaður hans og tóku undir þetta sjónarmið, eða mótmæltu ekki.“ — Síðan koma lögin með allt öðrum hætti en höfðu verið kynnt þarna, þ.e. lagaákvæðið um að fella útflutningsskylduna strax niður kemur nú inn í þetta frumvarp. Ég leyfi mér að vitna til síðustu orða í bréfi þessara samningamanna þar sem segir, með leyfi forseta:

„Við undirrituð mótmælum þessu harðlega og skorum á landbúnaðarnefnd Alþingis að sjá til þess að við áðurnefnd fyrirheit verði staðið.“

Það var fullkomlega útlátalaust við feril þessa máls að láta lagaákvæðið hvað þetta varðaði bíða til næsta árs og meta þá stöðuna upp á nýtt ef á þyrfti að halda. Ég flyt breytingartillögu þess efnis, (Forseti hringir.) frú forseti.