133. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[11:52]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Á þskj. 1121 er breytingartillaga sem ég flyt við þetta frumvarp. Eins og ég boðaði hér við 1. umr. gengur hún út á það að slá varnagla, fara ekki eins óvarlega og ég gat um við 1. umr., að taka útflutningsskylduna skilyrðislaust af án þess að nokkur möguleiki væri fyrir ríkið eða samtök bænda að hafa nokkur áhrif á þróun verðlagningar þessara hluta þegar þar að kemur. Ég tel fullkomið ábyrgðarleysi að ganga þannig frá þessum samningi vitandi það að við eigum von á því að aukinn innflutningur á kjötvöru geti haft þau áhrif að hér geti orðið mikil verðlækkun á afurðum sauðfjárbænda þannig að þeir verði skildir eftir í algjörri óvissu.

Ég hefði ætlað að við 1. umr. kæmi fram skilningur hjá mörgum þingmönnum, m.a. hjá hv. þm. Drífu Hjartardóttur, formanni landbúnaðarnefndar, um að svo mætti ekki vera. Eigi að síður er skilað inn nefndaráliti meiri hlutans þar sem segir að nefndin leggi til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt. Ég á ákaflega erfitt með að koma því fyrir mig, virðulegi forseti, hvers vegna landbúnaðarráðherra vill ekki hafa í lögunum þann varnagla sem ég legg til með þessari breytingartillögu. Hvernig í ósköpunum stendur á því að hæstv. ráðherra vill þetta ekki? Hann veit ekki frekar en nokkur annar hvernig hlutirnir verða hér 2009 og 2010, hann hefur ekki hugmynd um það og getur ekki vitað það.

Ég lít á það sem mikið kæruleysi og mjög ámælisvert að ganga svona frá hlutum. Það var hárrétt, virðulegi forseti, sem kom fram hjá formanni landbúnaðarnefndar, hv. þm. Drífu Hjartardóttur, þegar hún taldi upp þau landsvæði á Íslandi sem ættu kannski allt sitt undir því að sauðfjárræktin fengi að halda velli. Það var hárrétt upptalning. Hún fór í gegnum það og hversu gríðarlega þýðingu sauðfjárræktin hefur fyrir byggð í landinu. Eigi að síður vill hún ekki breyta þessu þannig að við höfum möguleika á að grípa til aðgerða ef til þess þyrfti að koma, við vitum það ekki. Það er algjörlega útgjaldalaust að gera þetta. Það kom mjög skýrt fram, virðulegi forseti, í umsögnum Bændasamtaka Íslands. Það kom mjög skýrt fram í samningaviðræðunum við ríkið að það var eindreginn vilji samninganefndarinnar að við hefðum þessa varnagla. Það kom líka mjög skýrt fram við landbúnaðarnefndina, við yfirferð á þessum hlutum, að það er skýr vilji samtaka bænda að hafa þennan varnagla. Eigi að síður er þetta afgreitt svona, lagt til að frumvarpið skuli afgreitt óbreytt.

Aðspurð hér áðan, virðulegi forseti, sagði hv. formaður nefndarinnar að samningurinn væri svona og þess vegna gæti Alþingi ekki breytt honum. Síðan hvenær hefur Alþingi ekki heimild til að breyta samningi, ég tala nú ekki um þegar eindregin tilmæli samningsaðilans, samtaka bænda, eru að svo verði gert? Þetta vekur óneitanlega furðu mína. Ég skil ekki, eins og ég sagði áðan, hvaða kjarkleysi það er hjá hæstv. landbúnaðarráðherra að vilja ekki hafa þessa heimild. Ég bara skil það ekki. Ég skil ekki heldur hvaða ábyrgðarleysi það er af hálfu meiri hluta landbúnaðarnefndar að verða ekki við beiðni bænda. Algjörlega útgjaldalaust fyrir ríkið að öllu leyti. Það sýnir þvergirðingshátt að vilja ekki koma til móts við vilja þeirra. Vilji þeirra er alveg skýr og vilji þeirra er eðlilegur vegna þess að þeir hafa ástæðu til að óttast um hag sinn í þeirri óvissu sem framtíðin ber í skauti sér. Það er ekkert skrýtið. Það er mjög eðlilegt og mjög sjálfsagt.

Þess vegna furða ég mig á þessu, virðulegi forseti, ég ítreka það við þingheim og bið menn að skoða þetta á yfirvegaðan hátt. Hér er ekki um neitt pólitískt mál að ræða. Hér er ekkert sem skiptir máli gagnvart stuðningi við eina ríkisstjórn, eða ekki stuðningi. Hér er um það að ræða að Alþingi Íslendinga komi til móts við eðlilega og sjálfsagða beiðni bænda, útgjaldalausa. Ég bið menn að hugleiða þetta mjög vel áður en kemur til atkvæðagreiðslu. Ég bið menn að styðja þessa tillögu mína vegna þess að hún er bara sett fram af eðlilegri varkárni til þess að geta þá mætt því sem framtíðin ber í skauti sér ef svo fer, annars ekki.