133. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[12:52]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eftir því sem ég hlusta meira á hv. þingmenn Vinstri grænna geri ég mér æ betur grein fyrir því hvað það er mikilvægt að þessir miklu samningar um sauðfjárbúskapinn og mjólkina skuli vera komnir í höfn og vera til ársins 2012 og 2013. Hv. þingmaður ber ekki meiri virðingu fyrir þeim samningum en svo að hann ætlar að fara með þá á allt annan hátt en aðra samninga. Ég ætla að spyrja hv. þingmann, af því að hann dreymir um að verða landbúnaðarráðherra: Ef það kæmi í hans hlut að semja slíkt mundi hann kalla fulltrúa frá öllum þingflokkum, stjórnar og stjórnarandstöðu, að þeirri samningagerð? Hann sagði þetta áðan berum orðum.

Ég hef haft þetta eins og gerist hjá verkalýðssamtökum, eins og BSRB. Þarna koma bændur að, fulltrúar landbúnaðarráðuneytis og fjármálaráðuneytis. Ég sé að hv. formaður BSRB kinkar kolli og styður mig sennilega í þessari hugsun. En það er best að hv. þingmaður svari því.

Ég vil líka segja út af útflutningsskyldunni, sem hv. þingmaður talar mikið um, að það hefur legið fyrir að hún er mjög gagnrýnd í WTO, talin beinn stuðningur upp á 1,5–2 milljarða. Ísland sætir mikilli gagnrýni fyrir að landbúnaðarráðherra skuli úrskurða að kjöt fari á þennan markað og taka það út af markaði. Einnig liggur fyrir að slíkt er gagnrýnivert út af samkeppnislögum. Í þriðja lagi liggur það fyrir að lambið hefur vikið af markaðinum, eins og ég hef margfarið yfir, og tapað hlutdeild.

Nú liggur það fyrir í þessum samningum að ríkisvaldið mun mæta því ef sveiflur verða miklar. Það eru 300 milljónir á ári sem koma vegna þessa til bændanna, 1,8 milljarðar kr. til viðbótar inn í samninginn til að mæta sveiflunum svo bændurnir haldi sínu þó að verð lækki til neytenda. Ég tel því að þetta sé mjög farsæl lausn og um það var samstaða milli ríkisvalds og bænda að mæta þessu óhjákvæmilega atriði með þessu móti.