133. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[12:59]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Við heyrum að hér fer þreyttur landbúnaðarráðherra. Það er sjálfsagt að taka við af honum ef þannig æxlast. Ég treysti mér alveg til þess, get fullyrt það án þess að ég sé að kasta rýrð á störf hæstv. landbúnaðaráðherra, Guðna Ágústssonar.

Hinu hefur hæstv. ráðherra ekki svarað heiðarlega: Hvers vegna var ekki staðið við þau fyrirheit sem gefin voru varðandi gerð þessa sauðfjársamnings? Þeir bændur sem skrifuðu bréfið segja að ekki hafi verið talið nauðsynlegt að setja þetta inn í samningstextann vegna þess að fullt heiðursmannasamkomulag væri um að útflutningsskyldan yrði ekki leidd í lög fyrr en eftir ár. Það má vel vera að hæstv. ráðherra hafi ekki haft pólitískt bakland til að standa við þau fyrri loforð sem hann gaf bændum. Þá á hann að viðurkenna það og biðja þessa heiðursmenn og samninganefndina afsökunar. (Landbrh.: Það breytir engu.) Jú, það breytir því hvort maður stendur við heiðursmannasamkomulag sem gert er.

Ef hæstv. landbúnaðarráðherra ætlar að halda því hér fram að þessir ágætu bændur fari með ósannindi þá er ég ekki sammála því. (Gripið fram í.) Hæstv. landbúnaðarráðherra getur beðið afsökunar og sagt að hann hafi ekki haft afl til að gera meira, sem er kannski staðreyndin. Hann á að viðurkenna það ef það var ástæðan fyrir því að hann gat ekki staðið við þau orð sem samninganefndinni voru gefin.