133. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[13:03]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður vitnar til WTO sem er skammstöfun fyrir einhver alþjóðleg samtök um verslun með þjónustu. Við vitum ekkert hvar það mál er statt. Við getum þess vegna ekki tekið mikið tillit til þess enda, eins og rætt var hér um manna á meðal áðan, hefur WTO ekki atkvæðisrétt meðal íslenskra neytenda. (Gripið fram í.)

Hagsmunir neytenda og hagsmunir framleiðenda fara saman um það að þessari búgrein séu sköpuð tilhlýðileg starfsskilyrði. Ég vitna til þeirrar góðu könnunar sem gerð var meðal neytenda hér á landi um að yfir 90% vilja öflugan landbúnað og holla og góða framleiðslu. Og auðvitað skiptir verð máli.

Okkur ber skylda til að standa vörð um þetta og til þess er þessi samningur. Einn mikilvægur þáttur hans er heimildin til útflutningsskyldu. Ekki útflutningur eins og hv. þingmaður nefndi, heldur heimildin sem mætti nota við mjög sérstakar aðstæður til að grípa til útflutningsskyldu ef það er nauðsynlegt fyrir hagsmuni bæði bænda og neytenda.

Þessi samningur er um hagsmuni allra þessara aðila sem þarna á að ná utan um. (Gripið fram í.) Menn geta deilt um vægi einstakra þátta innan þessa samnings en útflutningsskyldan hefur verið einn mikilvægasti þátturinn í þessari umgjörð. Við skulum vona að ekki þurfi að beita henni en það væri líka hrapallegt (Forseti hringir.) að ætla að kasta þessum möguleika frá sér.