133. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[13:05]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er hrapallegt að kasta þessum möguleika frá sér og nota ríkisvaldið til að skylda framleiðendur til að flytja út framleiðslu sína sem þeir geta selt á innanlandsmarkaði. Hv. þingmanni finnst hrapallegt að því vopni skuli vera kastað frá sér. Hann vill geta látið landbúnaðarráðherrann taka slíkar ákvarðanir sem brjóta örugglega í bága við samkeppnislög í landinu og eru þar fyrir utan gjörsamlega óviðunandi fyrirkomulag og ögrun við neytendur í landinu.

Þegar talað er um að það sé hagsmunum neytenda til góða að svona aðferðum sé beitt sem er bókstaflega beint gegn neytendum í landinu kemur það í veg fyrir að samkeppnin leiði fram það verð á markaðnum sem framleiðslan og framboðið á að skapa.

Ég held að hv. þingmaður þurfi að fara vandlega yfir þetta. Ég hef áhyggjur ef hann er virkilega að tala fyrir hönd Vinstri grænna í þessum efnum. Mér hefur sýnst að þar þykist menn vera að tala fyrir hönd neytenda líka. Það er sko ekki talað fyrir hönd neytenda þegar menn tala með þeim hætti sem hv. þingmaður hefur verið að gera. (Gripið fram í: Neytendur hafa atkvæðisrétt.) Neytendur hafa atkvæðisrétt og neytendur taka þátt í skoðanakönnunum. Það kemur í ljós í vor hvernig niðurstaðan verður.

Ég held þess vegna að það sé mjög gott að menn ræði þessi mál og fái það algjörlega á hreint á hvaða leið Vinstri grænir eru hvað varðar þessi mál. Eru þeir flokkur sem er tilbúinn til að horfa á hagsmuni neytenda eða eru þeir bara að hugsa um einstaka búgreinar eða eitthvað því um líkt eins og virðist vera augljóst af þeim orðum sem hv. þingmaður hefur verið hér með um þessa útflutningsskyldu? Ég hvet hann til að eyða nú nóttinni í að fara yfir þetta mál og velta fyrir sér á hvaða braut hann sé þar.