133. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[14:44]
Hlusta

Frsm. meiri hluta landbn. (Drífa Hjartardóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður sagði í ræðu sinni áðan að verið væri að gera samninginn núna, það væri nógur tími. Það er bara þannig, hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir, ef hv. þingmaður vildi hlusta á það sem ég hef að segja, að þá er það of seint að gera samninginn í haust 2007, samning sem þarf að taka gildi árið 2008 vegna þess, eins og ég sagði áðan í andsvari við hv. þm. Helga Hjörvar, að það er sauðburður í vor og síðan er sláturtíð að hausti og menn verða að geta hagað sínum ásetningi hvað á að velja til líflamba. Það gera menn í haust, það gera menn í ágúst/september en ekki þegar fara á að hleypa til í desember.

Lífkeðjan er svolítið löng og það verður að huga að hlutunum í tíma. Samningurinn er að mínu mati afar góður fyrir bændur og ekki síður fyrir ríkið og neytendur og það er mjög mikilvægt að hann nái fram að ganga núna. Bændur eru að fara í allt annað umhverfi núna með niðurfellingu tollanna. Þá verður mikil samkeppni á markaðnum, miklu meiri en menn hafa verið í áður. Þess vegna er þetta mjög mikilvægt. Ég vil nefna það því að hv. þingmaður vildi meina að það væru bara þingmenn stjórnarflokkanna sem hefðu samþykkt samninga við bændur, að þá minnir mig að það hafi verið svo þegar samningur við kúabændur var hér til afgreiðslu að þá hafi það bara verið einn þingmaður sem ekki vildi samþykkja þann samning. Allir aðrir voru sammála. Þannig er það í hv. landbúnaðarnefnd að þar erum við yfirleitt mjög sammála, allir þingmenn.