133. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[14:50]
Hlusta

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef alltaf svo gaman af því í þessari umræðu þegar menn fara að tala um það að 1988, fyrir 19 árum, hafi Alþýðuflokkurinn komið með matarskatt. Það var vegna þess að það var verið að breyta um kerfi, úr söluskattinum sem var orðinn svo hriplekur af því að menn voru orðnir svo flinkir við að nýta sér allar smugur í honum og yfir í virðisaukaskatt. Þá kom sú hugmynd fram hjá þáverandi fjármálaráðherra að vera með matvæli í einu skattþrepi, það yrði engin flækja á milli prósentustiga af reynslunni sem hafði verið af söluskattinum. Það mætti miklu andstreymi og það var horfið frá því.

Þá vil ég benda á að Danmörk sem við berum okkur mjög saman við á mörgum sviðum er með 25% virðisaukaskatt af allri matvöru. Samt er matur þar miklu lægri. Það er vegna þess að kerfið hjá þeim er allt öðruvísi. Danir eru ekki með þessa tolla, vörugjöld og allt það. En af því að ríkisstjórnin er búin að boða að hún ætli líka að lækka tolla og afnema þá á tilteknum tíma þó að hún sé ekki búin að segja á hve löngum tíma vil ég spyrja um tvennt:

Kom aldrei til álita vegna þeirrar stefnumörkunar að framlengja sauðfjársamninginn um eitt eða tvö ár? Svo vil ég spyrja ráðherrann hvort það sé virkilega rétt að Bændasamtökin hafi ekki óskað eftir sundurliðun á verðmyndun landbúnaðarvöru.