133. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[14:54]
Hlusta

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég man alveg eftir stórfyrirsögnum í tilteknum blöðum um að Samfylkingin ætlaði að leggja samfélag bænda í rúst. Svoleiðis fyrirsögn kom ekki skömmu síðar þegar stjórnarflokkarnir eltu okkur í tillöguflutningnum. Ég geri mér alveg grein fyrir þessum hlutum. Ég heyri að í raun og veru hefur aldrei verið neitt annað í stöðunni en að vera með allt óbreytt. Ég tek það þannig að þó að núna sé tal um tollalækkanir er í raun og veru engin ákvörðun hjá þessum flokkum um að taka á neinu.

Mér finnst mjög alvarlegt að hæstv. landbúnaðarráðherra skuli ekki hafa svarað fyrirspurn minni um það hvort það sé virkilega rétt sem stendur í svari við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur að Bændasamtökin hafi ekki óskað eftir sundurliðun á verðmyndun á landbúnaðarvörum. Þetta er grundvöllur að því að geta tekið á þessari óhagstæðu skiptingu og þar sem hæstv. landbúnaðarráðherra svarar mér ekki hlýt ég að ganga út frá því að svarið sem er á borðum okkar sé rétt. Ég álasa Bændasamtökunum fyrir það, ég álasa þeim fyrir að kalla ekki eftir þessari sundurliðun þannig að það liggi fyrir á hverjum tíma hvað bóndinn fær lítið af heildarverðinu á meðan alltaf er svo sagt að háa matarverðið sé bóndanum að kenna. Hér segi ég úr ræðustól Alþingis: Það hefur aldrei komið frá Samfylkingunni að hátt matarverð sé bóndanum að kenna. Það er afflutningur á stefnu okkar af öðrum sem eru hræddir við hana.