133. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[15:20]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það verður að segjast eins og er að það fer hæstv. landbúnaðarráðherra miklum mun betur þegar hann dettur í kosningagírinn heldur en þegar hann fer í Rússagrýluna. Það var heldur hjáróma málflutningur. Hinn hefðbundni framsóknaráróður, sem hæstv. ráðherra hefur stundað í nokkrum kosningum, er greinilega kominn í gang og nú á að treysta á þjóðina, að hún muni sjá að allt er fagurt sem fram undan er ef Framsóknarflokkurinn fær áfram að velgja stólana.

Það verður að segjast eins og er, frú forseti, að litla trú hef ég á því að spádómar hæstv. ráðherra rætist. Ég held að því miður, hans vegna og hans flokks, sé tími Framsóknarflokksins liðinn sem slíkur og sé nú nær því að menn í flokknum einbeiti sér að því að reyna að endurreisa hlutina frá því þegar Framsóknarflokkurinn (Gripið fram í.) var vinstri flokkur eins og hann var á tímabili. Það er liðin tíð. En það er sérkennilegt ef hæstv. landbúnaðarráðherra, sem ég hélt að teldi sig svona til vinstri vængs Framsóknarflokksins, er úr ræðustól Alþingis farinn að biðja um að ríkisstjórnin núverandi megi sitja áfram. Ég verð að segja eins og er, frú forseti, að ég taldi alveg fullvíst að hæstv. landbúnaðarráðherra væri búinn að fá nóg í íhaldsvistinni og teldi að tími væri kominn til breytinga. Ég heyrði að 2. maður á lista hjá hæstv. ráðherra bað, í sjónvarpsþætti frekar en útvarpsþætti, um að Framsóknarflokkurinn yrði aftur stimplaður vinstri flokkur og mætti aftur komast í samstarf með betri aðilum en þeim sem hæstv. ráðherra situr nú í bandalagi við. Nú veit ég ekki hvort Framsóknarflokkurinn á Suðurlandi er klofinn en þeir eru ekki einu sinni sammála í 1. og 2. sæti um væntanlegt stjórnarsamstarf. Það eru aldeilis tíðindi, hæstv. ráðherra.