133. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[15:31]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Dæmi nú hver fyrir sig. Var þetta málefnaleg umræða um búvörusamning? Hér hafa að vísu farið fram mjög málefnalegar umræður af hálfu flokkssystkina hv. þingmanns og margra annarra. Hins vegar hafa pólitískar glettur, sérstaklega á milli mín og Samfylkingarinnar, komið upp og eru ekki til skaða í umræðunni.

Einhvern tíma orti skáld: Fullur af illu einu/illyrðin sparar síst. Hér hefur hv. þm. Steingrímur Sigfússon sýnt að hann þolir enga gagnrýni, stekkur upp á nef sér og verður fokvondur ef við hann er komið. Í 24 ár hefur þessi hv. þingmaður skammað allt og alla með stóryrðum. Nú er búvörusamningsumræðan hans um sauðfjárræktina sú að hann þolir ekki einhverjar pólitískar glettur sem hér hafa gengið og hann kemur inn í umræðuna alveg eins og snúið roð. Mér er nákvæmlega sama því að ég hef engar áhyggjur af stöðu Framsóknarflokksins. Hann mun ná fylgi sínu. Þjóðin mun auðvitað átta sig á því að menn sem boða það sem hv. þingmaður og flokkur hans boðar eiga ekki að komast til valda á Íslandi. Þeir eru best settir í stjórnarandstöðu eins og slíkir flokkar eru auðvitað um allan heim.

Hæstv. forseti. Hér hefur í dag farið fram mjög málefnaleg 2. umr. um búvörusamninginn og nú sjá allir og ég bið þingheim og þá sem fylgdust með umræðunni að sjá í hvers lags skapi hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon er. Um leið og hann fær smágagnrýni verður hann öskuillur og fýkur upp í ræðustólinn með enn þá meiri svívirðingum en nokkru sinni fyrr. Ég skal að vísu viðurkenna að mér þykir vænt um hv. þingmann og tel hann til vina minna og ég veit að hann hefur heilmikla þekkingu á landbúnaðarmálum enda verið landbúnaðarráðherra sjálfur, sveitadrengur að uppeldi og (Forseti hringir.) heill í garð landbúnaðarins. Ég hef aldrei dregið það í efa.