133. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[15:34]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég bjóst ekki við því að hv. þm. Guðni Ágústsson þyldi að tekið væri aðeins á honum. Það sannaðist auðvitað. Það er nefnilega svo undarlegt með hæstv. landbúnaðarráðherra að hann telur að hann eigi að hafa einkarétt á tilteknum hlutum, hann eigi að hafa einkarétt á því að kalla andstæðinga sína hér ónefnum, gera þeim upp skoðanir, kenna þá við kommúnisma, einræði, afturhald, þröngsýni og guð má vita hvað. En um leið og aðeins er tekið á móti hæstv. landbúnaðarráðherra er hann hrokkinn í þennan gír. Það er ekki þannig að hæstv. landbúnaðarráðherra Guðni Ágústsson hafi einn leyfi til þess og geti búið við friðarskyldu hvað það varðar að það megi ekki anda á hann á móti. Þannig finnst framsóknarmönnum að þetta eigi að vera, þeir megi úthúða öðrum, snúa út úr og gera þeim upp skoðanir en um leið og tekið er eitthvað á móti er allt í uppnámi á framsóknarheimilinu.

Það er svo undarlegt með þá framsóknarmenn að þeir halda að þeir njóti einhverrar friðhelgi. Það er ekki búið að friðlýsa tegundina enn þá. Það er ekki svo að það megi ekki anda á hana, eða hvað? Ég held að hæstv. landbúnaðarráðherra verði bara að una því að stundum sé tekið á móti honum þegar hann kemur með sinn venjulega stíl eins og hann hefur gert aftur og aftur í umræðunni. Það var landbúnaðarráðherra sem hóf þennan leik, það var landbúnaðarráðherra sem kom með pólitískt skítkast í umræðuna aftur og aftur í andsvörum og það er við hann að sakast ef menn kvarta undan því að þetta hafi sett ljótan svip á umræðuna sem hefur að öðru leyti fjallað um þetta faglega mál, búvörusamninginn.

Vegna þess sem hér var rætt um að það væri eitthvað óeðlilegt að vekja athygli á því að um málið hefði ekki verið haft mikið þverpólitískt eða faglegt samráð vil ég segja að svo er að sjálfsögðu ekki. Það er fullkomlega eðlilegt í ljósi þess að hér er ekki bara um samning að ræða, hér er um stefnumótun og starfsgrundvöll heillar atvinnugreinar að ræða og það er eðlilegt að menn veki athygli á því að æskilegt væri að reyna að leita um slík málefni sem víðtækastrar samstöðu og þverpólitískrar sáttar, enda var það iðulega gert á árum áður.