133. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[15:54]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það ástand sem hv. þingmaður vísaði til á markaðnum var auðvitað erfitt og vont fyrir þá sem áttu hlut að máli. En ég vil þá beina þeirri spurningu til hv. þingmanns hvort hann telji að það hefði átt að taka upp slíka útflutningsskyldu á aðrar greinar. Telur hann yfirleitt að þessi aðferð gangi ef framleiðendur af einhverjum ástæðum lenda í vandræðum vegna offramleiðslu eða kunna ekki fótum sínum forráð á markaðnum? Á þá ríkið að koma til og gera það að skyldu að einstakir framleiðendur taki vörur af markaði og flytji út?

Ég er algjörlega andvígur svona aðferðum, að hið opinbera geti gripið inn með þessum hætti og tel það hið mesta óráð. Það er ekki verið að banna bændum að flytja út kjöt af neinu tagi þó að þessi útflutningsskylda sé tekin af. Það er hins vegar verið að hverfa frá þessari aðferð sem ég tel að gangi ekki.

Ég verð að segja það alveg eins og er að ég hef aldrei botnað í því hvers vegna neytendur og þeir aðilar sem bera hag neytenda mest fyrir brjósti, verkalýðsfélög og aðrir, hafa ekki mótmælt því harðar en þeir hafa gert að nota slíkar aðferðir við að skammta framboð á markað. Mér finnst þær ekki boðlegar og þær eru að öllum líkindum líka lögbrot.