133. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2007.

skipan nefndar til að kanna starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn.

668. mál
[18:31]
Hlusta

Frsm. allshn. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var ekki viðstaddur 1. umr. þessa máls. Ég er því að heyra þessar athugasemdir hv. þingmanns í fyrsta sinn núna. En ég leyfi mér einfaldlega að benda á að þessi nefnd mun skila af sér niðurstöðum sem verða að sjálfsögðu í engu bindandi fyrir stjórnvöld. Hún er til ráðgjafar fyrir stjórnvöld.

Ég vek jafnframt athygli á því að þótt allsherjarnefnd geri tillögu um að í nefndina verði skipaður sérfróður aðili á sviði barnaverndarmála þá er einnig gert ráð fyrir því frumvarpinu að nefndin geti kallað sér til aðstoðar sérfróða aðila. Ég vænti þess að ekki síst á grundvelli sérfræðikunnáttu nefndarmanna eða þeirra sem hún kallar til komi til álita að tillögur um ráðstafanir stjórnvalda komi fram, að lagt verði á það sérfræðilegt mat að hve miklu leyti slíkt getur komið til álita í ljósi útkomunnar.

Jafnframt er rétt að benda á að nú þegar hafa stjórnvöld gripið til vissra ráðstafana sem ætlað er að tryggja þeim sem vistaðir voru á þessum barna- og unglingaheimilum aðstoð eftir því sem þörf krefur.