133. löggjafarþing — 90. fundur,  15. mars 2007.

frumvarp til stjórnarskipunarlaga.

[20:57]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Gönuhlaup hæstv. ríkisstjórnar í þessu máli er hennar, og hæstv. ríkisstjórn og hæstv. ráðherrar hafa við enga að sakast nema sjálfa sig. Það sér öll þjóðin. Það sér hver heilvita maður, eins og sagt er. Að ætla að reyna að skríða með þessum hætti í skjól af stjórnarandstöðunni og kenna henni um mál sem er alfarið á ábyrgð ríkisstjórnarinnar, alfarið, eru einhverjar mestu kúnstir sem maður hefur lengi séð. Ekki er það stórmannlegt.

Þetta mál strandar ekki hér á þingi eða inni í sérnefnd vegna stjórnarandstöðunnar. Okkur er ekkert að vanbúnaði að halda þar áfram fundum og ræða málið. Það liggur algerlega fyrir. Við höfum boðið upp á að þess vegna mætti lengja þingið ef þyrfti. Það eru stjórnarflokkarnir sem eru sjálfir búnir að stranda þessu í eigin höndum. Þeir hafa haldið á þessari heitu kartöflu allan tímann. Hún hefur aldrei farið úr lófum þeirra. Það er eins aumkunarvert og nokkuð getur verið að ætla að reyna að kenna stjórnarandstöðunni um þetta eins og mér er sagt að hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra hafi verið að reyna í fjölmiðlum í dag.

Það er einfaldlega þannig að hæstv. ríkisstjórn verður að horfast í augu við eigin uppgjöf, eigin niðurlægingu, eigin gönuhlaup í þessu máli og getur ekki kennt öðrum um það. Þessi vinnubrögð eru blettur á ferli þessara ágætu manna, að umgangast stjórnarskrá lýðveldisins af þessari léttúð, en þó er vissulega hægt að hrósa þeim fyrir eitt, það að sjá að sér. Þeir mundu frekar vaxa en hitt ef þeir væru menn til að viðurkenna það og vera ekki að reyna að kenna öðrum um.

Ef þeir hefðu bein til þess að standa í lappirnar og taka það á sig að þeir gerðu alvarleg mistök — þeim varð á og í raun og veru ættu þeir að biðja þing og þjóð afsökunar á þessu frumhlaupi — væri hægt að reyna að gleyma þessu dapra máli.