133. löggjafarþing — 90. fundur,  15. mars 2007.

frumvarp til stjórnarskipunarlaga.

[21:05]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Það hefur verið sérstakt, svolítið sérkennilegt, að fylgjast með framvindu stóra stjórnarskrármálsins á Alþingi. Stóra stjórnarskrármálið er svo stórt að það er nú að engu orðið. Stóra stjórnarskrármálið skrifast á ábyrgð formanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Það var svo vanreifað, svo illa undirbúið að það fékk falleinkunn hjá nánast öllum sérfræðingum sem komu á fund þeirrar nefndar sem fjallaði um málið fyrir þingið.

Hvers vegna kom stóra stjórnarskrármálið yfirleitt á dagskrá Alþingis? Við fengum skýringuna á því áðan úr munni hæstv. forsætisráðherra landsins. Það var stjórnarandstaðan sem hratt málinu af stað vegna fréttamannafundar sem efnt var til. Með öðrum orðum, það var vegna pólitískrar stöðu sem upp var komin að þetta sjónarspil var sett á fjalirnar. Þar lék Framsóknarflokkurinn aðalhlutverkið, Sjálfstæðisflokkurinn hannaði leiktjöldin og skrifaði leikritið en fórnarlambið átti að vera stjórnarskrá Íslands.

Eru þetta sæmandi vinnubrögð? Það finnst mér ekki. (Gripið fram í: … þjóðarinnar.)