133. löggjafarþing — 90. fundur,  15. mars 2007.

frumvarp til stjórnarskipunarlaga.

[21:07]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hótanir um stjórnarslit, næturfundir, nætursendlar, hávaði, fjölmiðlafár og læti, kannast einhver við þessa atburðarás? (Gripið fram í.) Veit einhver til þess að haft hafi verið samband við stjórnarandstöðuna? Veit einhver til þess að aðrir hafi tekið þátt í þessu leikriti? Er þessi atburðarás ekki skýr? Hún hefur verið skrásett í öllum fjölmiðlum.

Svo koma núna tveir hæstv. ráðherrar og lýsa því yfir að það sé stjórnarandstaðan sem væntanlega ber ábyrgð á hótunum um stjórnarslit, næturfundum, nætursendlum og öllu því sem þessu tengist. Virðulegi forseti. Ég held að þetta sé mesta sneypuför sem nokkrir ráðherrar hafa farið í áratugi. Það er leitun að öðru eins ef nokkru verður jafnað til því að rétt er að hafa í huga að við erum að tala um breytingar á stjórnarskránni sjálfri, því skipulagi íslensku þjóðarinnar sem geymir æðstu reglur um skipulag íslensku þjóðarinnar og stofnanir.

Þeir hlupu hér inn, strákarnir, eftir þessa fundi undir hótunum um stjórnarslit og ætluðu að breyta þessu og gera það hratt og örugglega. Ef ég man rétt er sólarhringur síðan hæstv. iðnaðarráðherra lýsti því yfir að þetta væri svo skýrt og einfalt að það ætti að rúlla í gegn. Að vísu komu 20 sérfræðingar fyrir sérnefndina og lýstu þessu sem handónýtu sem minnir mig, virðulegi forseti, á orð formanns Sjálfstæðisflokksins fyrir nokkrum árum þegar fjármálaráðherra vildi (Forseti hringir.) hrekkja blaðburðarbörn, þá sagði hann: (Forseti hringir.) Svona gerir maður ekki.

Svona gerir maður ekki.