133. löggjafarþing — 90. fundur,  15. mars 2007.

frestun á fundum Alþingis.

700. mál
[21:14]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Virðulegur forseti. Ég vil bara vekja athygli á því að það er forsætisráðherra sem flytur hér og mælir fyrir tillögu til þingsályktunar um heimild til frestunar á fundum Alþingis. Hann gerir það væntanlega af fúsum og frjálsum vilja og það er áhugavert að skoða orð hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra í því samhengi. Það er ekki samkvæmt ósk eða pöntun frá stjórnarandstöðunni að hæstv. forsætisráðherra leggur hér fram þingfrestunartillögu og hið sama gildir að sjálfsögðu um þau mál sem hér voru til umfjöllunar áðan.

Ég verð að leyfa mér að nota tækifærið, frú forseti, þó að það varði ekki þetta dagskrármál beint að lýsa mikilli undrun minni á því að formaður Framsóknarflokksins, hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, skuli bera stjórnarandstöðuna þeim sökum hér, fullkomlega að ósekju og út í loftið, að menn gangi á bak orða sinna. Ég heyrði ekki betur en að það væri það sem hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra segði hér áðan. (Gripið fram í.) Þetta er rétt eftir haft, já? (Iðnrh.: Það er líka satt.) Við erum að ganga á bak orða okkar? (Iðnrh.: Það er rétt.)

Hvaða orð eru það, hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sem stjórnarandstaðan er að ganga á bak? (Gripið fram í.) Ég man ekki betur en að ég hafi hlustað á hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra svara fjölmiðlum því til að það hefði einmitt aldrei komið til greina að ræða við stjórnarandstöðuna um stjórnarskrárbreytingafrumvarp þeirra tvímenninganna vegna þess að það stæði í stjórnarsáttmálanum og auðvitað færu þeir ekki að semja við stjórnarandstöðuna um hann.

Ég mæli með því að hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra fari að gera upp við sig hvaða útgáfu af þessari sögu hann ætlar að halda sig við. (Iðnrh.: Rétta.) Já, og er það sem sagt það rétta? Hvort er það rétt sem þú sagðir í fjölmiðlum að það hefði aldrei komið til greina, hæstv. ráðherra, að tala við stjórnarandstöðuna af því að — (Gripið fram í: … orðum sínum.) Ég er að því, (Gripið fram í: … forseta.) ég leiðrétti mig í sömu setningunni, má ég það ekki? (Gripið fram í.) Virðulegur forseti. Ég vil gjarnan að hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra fari að koma sér niður á einhverja eina útgáfu af þessari sögu. Í öðru orðinu segir hann að það hafi aldrei staðið til að ræða þetta við stjórnarandstöðuna — sem er rétt og þeir ekki gerðu, eins og hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir réttilega rakti hér áðan. Það liggur algerlega fyrir, eða ætlar hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra að segja að við ljúgum því líka að það var aldrei talað við okkur, aldrei? Þeir hentu þessu frumvarpi inn á borð þingsins án þess að ræða það einu orði við aðra stjórnmálaflokka. Það er staðreynd málsins.

Þetta mál er alfarið í höndum ríkisstjórnarinnar, á hennar ábyrgð eða formanna stjórnarflokkanna (Gripið fram í.) og það er engin leið fyrir þá að kenna öðrum um það. Það eru þeir sem hér leggja til að fundum Alþingis ljúki nú og í krafti þess meiri hluta sem þeir hafa hér á þessari samkomu. Hvers konar málflutningur er það eiginlega (Gripið fram í: Hvaða máli …?) að ætla að kenna minni hlutanum um? Það er eitthvað það aumingjalegsta sem ég hef upplifað í þingsögunni að menn skuli ekki vera menn til að viðurkenna eigin mistök og klúður heldur reyna endalaust að kenna öðrum um það og það á svo fjarstæðukenndan hátt að það tekur engu tali eins og hér er.

Ég ætlast til þess að hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra hugsi sinn gang og velti fyrir sér hvort hann geri ekki réttast í því að draga þessar sveru ásakanir til baka, að stjórnarandstaðan hafi gengið á bak einhverra orða sinna. Það hefur hún ekki gert (GÓJ: Þú vildir ekki ræða málið í síðustu viku.) og það er ómaklegt og ómerkilegt að halda svona löguðu fram. Og ekki vex vegur manna sem ætla að reyna að bjarga sér í land með þessum hætti.