133. löggjafarþing — 90. fundur,  15. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[21:22]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Sauðfjársamningurinn sem er grundvöllur þessa frumvarps sem hér er til atkvæða er niðurstaða viðræðna milli ríkisstjórnarinnar og forustu Bændasamtakanna. Samfylkingin hefði kosið annars konar samning þar sem hefði verið horft til framtíðar í stuðningskerfi landbúnaðarins og við teljum að samningurinn nái ekki markmiðum um aðlögun greinarinnar að innlendum markaði né heldur nýbreytni í atvinnumálum dreifbýlisins.

Samfylkingin er fylgjandi beinum stuðningi við landbúnaðinn en hún gerir skýrar kröfur um árangur til hagsbóta fyrir framleiðendur og neytendur. Þessi árangur verður að skila sér í góðri afkomu bænda og lágu verði til neytenda. Við erum þeirrar skoðunar að með þessum samningi sé verið að læsa bændur inni í stöðnuðu kerfi landbúnaðarins til ársins 2013 og binda hendur næstu ríkisstjórnar.

Við höfum því ýmislegt við þetta að athuga, virðulegur forseti, en ég vil þó taka fram að við teljum að jákvætt skref sé stigið í samningnum fyrir neytendur með niðurfellingu á útflutningsskyldu. Þess vegna, virðulegur forseti, styðjum við ekki þær breytingartillögur sem hér koma fram um að taka útflutningsskylduna upp aftur í samninginn og munum greiða atkvæði gegn þeim breytingartillögum.

Hins vegar hvað varðar samninginn að öðru leyti þá er samningurinn gerður. Við virðum þá niðurstöðu sem í honum felst en við sitjum hjá við afgreiðslu samningsins á grundvelli þess sem ég hef hér sagt.