133. löggjafarþing — 90. fundur,  15. mars 2007.

samvinna vestnorrænna landa í baráttunni gegn reykingum.

77. mál
[21:42]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs til þess að lýsa fullum stuðningi við tillöguna til þingsályktunar um að koma hér á virkri samvinnu og samráði við landsstjórnir Færeyja og Grænlands og efla samvinnu og upplýsingamiðlun milli þessara landa í baráttunni gegn reykingum.

Ég tel að okkur hafi hér á Íslandi gengið bærilega að vinna bug á reykingavenjum landans og með þekkingu okkar getum við stutt Grænlendinga og Færeyinga og þá kannski sérstaklega Grænlendinga þar sem reykingar eru mikið vandamál og tíðni reykinga er mikil. En ég tel einnig að við þurfum að styrkja samvinnu okkar við hin Norðurlöndin til þess að vera sá stuðningur sem í þessari þingsályktunartillögu felst, þ.e. til að vera stuðningur við Færeyjar og Grænland þá þurfum við einnig að leita stuðnings til hinna Norðurlandanna.

Hæstv. forseti. Í baráttunni gegn reykingum höfum við notið stuðnings frá Norðurlöndunum, frá Noregi, með námsefni sem hefur farið inn í grunnskóla landsins. Þetta er námsefni sem þarf að uppfæra og fylgja eftir og styðja skólana í að nota. Til þess þurftum við stöðugt að sinna þessum verkefnum og nú er það í höndum Lýðheilsustofnunar að gera það. En þetta er töluvert mál og það þarf að efla og viðhalda þessum tengslum og hinum góða vilja Norðmanna til þess að uppfæra og þýða þetta námsefni sem þeir hafa. Ég tel að við getum síðan miðlað reynslu okkar áfram.

En við höfum ekki afl hér á landi til að vinna alfarið ein að bæði námsefni fyrir skólana og eins að stuðningsefni fyrir Lýðheilsustofnun og heilbrigðisstofnanir og starfsmenn sem eru að hjálpa fólki að hætta að reykja, efni til þess að nota í þessum tilgangi, þannig að við þurfum jafnhliða að styrkja tengsl okkar við Norðurlöndin til þess að geta svo stutt aðra.

Annars tek ég hjartanlega undir þessa þingsályktunartillögu og hvet til þess að námsstefnan eða ráðstefnan fyrir heilbrigðisstéttir vestnorrænu þjóðanna verði undirbúin sem fyrst og þegar það verður komið á verði því svo haldið áfram.