133. löggjafarþing — 90. fundur,  15. mars 2007.

útvíkkun fríverslunarsamnings Færeyja og Íslands.

83. mál
[21:49]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég lýsi stuðningi við það mál sem hv. þm. Jón Kristjánsson mælti hér fyrir við síðari umræðu málsins. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að gera allt sem við getum til að efla tengslin við frændþjóðir okkar til austur og til vesturs. Sérstaklega fagna ég þeim samningi sem hér er verið að slá endanlega í gadda í þessari útfærslu. Þegar þáverandi forsætisráðherra, Davíð Oddsson, fór til Færeyja og lýsti þessum samningi, sem þá var einhver víðtækasti og er enn þá víðtækasti samningurinn sem við höfum gert á sviði utanríkisviðskipta, þá tiltók hann það sérstaklega, sem mér þótti mjög vænt um, að ein grein þessa samnings gerði það að verkum að hægt væri að útvíkka hann og láta hann ná til Grænlands. Það er eiginlega ástæðan fyrir því að ég kem hingað upp vegna þess að hér á undan, fyrr á þessari dagskrá, var þingsályktunartillaga sem með vissum hætti tengdist þessari. Hún var um gagnkvæm ræðismannskipti. Þessi samningur, Hoyvíkur-samningurinn og ræðismannsskiptin eru auðvitað greinar á sama meiði, meiði samstarfs og aukinna samskipta við Færeyinga og Grænlendinga.

Ef hv. starfandi formaður nefndarinnar mætti á mál mitt hlýða langaði mig til að varpa til hans spurningu (Gripið fram í.) sem varðar samskipti okkar við Færeyinga og Grænlendinga. Ég spurði hv. þingmann um daginn og vona að hann misvirði það ekki við mig þó að ég taki það upp undir þessum dagskrárlið: Hvað líður auknum samskiptum okkar við Grænlendinga? Ég spurði hv. þingmann þá hvort nokkuð væri að frétta úr stjórnarherbúðunum varðandi það að við létum Grænlendinga njóta sömu virðingar og Færeyinga með því að koma þar upp ræðismannsskrifstofu.

Eins og kom fram í umræðum á fyrri stigum málsins hljóp utanríkisráðuneytið til og gekk frá slíkri skrifstofu í Færeyjum án þess að búið væri að ganga frá málinu hér. Ég spurði þá hv. þm. Jón Kristjánsson, sem mælti fyrir málinu, hvort eitthvað slíkt væri á döfinni, hvort einhverjar fregnir væru af samsvarandi aukningu á tengslum við Grænland. Hv. þingmaður hafði ekki neinar spurnir af því þá. Fyrst hann er hér í forsvari fyrir utanríkismálanefnd langar mig til að spyrja hv. þingmann, sem nú hefur lagt við hlustir, hvort nokkuð sé að frétta af auknum tengslum okkar við Grænlendinga á því sviði.

Ég var að segja, herra forseti, svo ég rifji aðeins upp fyrir hv. þingmanni, sem er kominn hér inn, að það væri mikið gleðiefni að við hefðum gengið frá þessum Hoyvíkur-samningi í því formi sem liggur fyrir. Sömuleiðis fagnaði ég því að þáverandi forsætisráðherra hefði lýst því yfir þegar hann kynnti samninginn í Færeyjum, það var Davíð Oddsson, að hægt væri líka vegna sérstaks ákvæðis að láta hann ná yfir til Grænlendinga síðar. Því fagnaði ég alveg sérstaklega. En af því, eins og fram hefur komið á fyrri stigum þessa máls, að ég er ákafur talsmaður þess að við eflum tengsl okkar við grannann í vestri, þá langar mig til að spyrja hv. þingmann eins og ég spurði hann þá, hvort einhverra fregna væri að vænta af því við kæmum upp ræðismannskrifstofu í Grænlandi.

Ég veit, herra forseti, að það er ekki undir nákvæmlega þessum dagskrárlið heldur öðrum sem við ræddum örlítið fyrr á fundinum en mér þætti ákaflega vænt um ef hv. þingmaður gæti upplýst mig eitthvað um þetta. Hugsanlega hefur hæstv. utanríkisráðherra, sem þá var fjarri, í tilefni af umræðunni sem hér varð allnokkur á dögunum, fyrir örfáum dögum, upplýst hann um stöðu þess máls.

Mikil skelfing yrði ég glaður og kátur fyrir mína hönd og hv. þingmanns, að ógleymdum Grænlendingum, ef svo væri, herra forseti, og gengi ég jafnvel mun friðsælli til hvílu í nótt.