133. löggjafarþing — 90. fundur,  15. mars 2007.

minning tveggja alda afmælis Jóns Sigurðssonar forseta.

704. mál
[22:01]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar þess efnis að Alþingi feli forsætisráðherra að skipa nefnd til að undirbúa hvernig minnast eigi þess að 17. júní 2011 verða liðin 200 ár frá fæðingu Jóns Sigurðssonar forseta. Lagt er til að í nefndinni eigi sæti fulltrúar stjórnmálaflokka á Alþingi, fulltrúi skrifstofu Alþingis og fulltrúi Hrafnseyrarnefndar. Geri ég ráð fyrir að óskað verði tilnefninga í nefndina að loknum komandi alþingiskosningum.

Nefndinni er ætlað að gera fyrstu tillögur eigi síðar en í árslok 2008 en vinna síðan að undirbúningi hátíðarhalda á árinu 2011. Henni er jafnframt ætlað að leita eftir tillögum frá stofnunum og samtökum sem tengjast minningu Jóns Sigurðssonar forseta.

Flutningsmönnum tillögunnar, sem eru formenn allra stjórnmálaflokka á Alþingi, þykir tilhlýðilegt að Alþingi hafi frumkvæði að því að 200 ára afmælis Jóns Sigurðssonar verði minnst á verðugan hátt.

Íslenska þjóðin hefur sýnt minningu Jóns Sigurðssonar margvíslegan sóma í gegnum tíðina. Undir forustu Hrafnseyrarnefndar hefur fæðingarstaður hans, Hrafnseyri við Arnarfjörð, verið byggður upp. Þar var árið 1980 opnað safn til minningar um Jón Sigurðsson. Þar er að finna ljósmyndasýningu um líf hans og starf.

Jónshús við Øster Voldgade í Kaupmannahöfn hefur verið í eigu Alþingis frá 1967 er það var gefið í minningu Jóns Sigurðssonar og Ingibjargar Einarsdóttur og þar er nú félagsheimili Íslendinga í Kaupmannahöfn.

Á árinu 2011 verða jafnframt liðin 100 ár frá stofnun Háskóla Íslands en skólinn var stofnaður á aldarafmæli Jóns forseta. Þess má vænta að háskólinn efni til hátíðarhalda af því tilefni. Það kemur þá í hlut þeirrar nefndar sem hér er gerð tillaga um að leita eftir samstarfi við háskólann ef það þykir henta.

Meðal þess sem afmælisnefndinni er ætlað að huga að í aðdraganda hátíðarhaldanna á árinu 2011 er að efla kynningarstarf um þjóðfrelsishetjuna Jón Sigurðsson, huga að framtíðaruppbyggingu á Hrafnseyri og bæta umhverfi staðarins. Enn fremur að ráðast í endurnýjun á safni Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri sem staðið hefur óbreytt 26 ár. Loks er að nefna endurbætur safns Jóns Sigurðssonar og konu hans, Ingibjargar Einarsdóttur í Jónshúsi í Kaupmannahöfn. Það má því gera ráð fyrir, virðulegi forseti, að tilhlýðilegt þyki að minnast afmælis Jóns Sigurðssonar í Reykjavík, á Hrafnseyri við Arnarfjörð og í Kaupmannahöfn.

Ég legg til, virðulegi forseti, að tillögu þessari verði vísað til síðari umr. en ekki er lagt til að málinu verði vísað til nefndar.