133. löggjafarþing — 90. fundur,  15. mars 2007.

Þjóðskjalasafn Íslands.

642. mál
[22:20]
Hlusta

Frsm. menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 66/1985, um Þjóðskjalasafn Íslands.

Menntamálanefnd Alþingis hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Pál Hreinsson prófessor, Val Árnason skrifstofustjóra frá menntamálaráðuneyti, Viðar Hreinsson og Sumarliða Ísleifsson frá Reykjavíkurakademíunni, Kjartan Ólafsson sagnfræðing og Guðna Th. Jóhannesson sagnfræðing. Þá hafa nefndinni borist umsagnir frá Guðna Th. Jóhannessyni sagnfræðingi, Kjartani Ólafssyni sagnfræðingi, Reykjavíkurakademíunni og þjóðskjalaverði.

Með frumvarpinu er lagt til að stofnað verði sérstakt safn, öryggismálasafn, sem á að varðveita öll skjöl og skráðar heimildir sem verið hafa í vörslum skilaskyldra aðila og snerta öryggismál Íslands, innra og ytra öryggi, á árunum 1945–1991. Frumvarpið byggist á tillögum nefndar sem forsætisráðherra skipaði á síðasta ári á grundvelli þingsályktunar sem samþykkt var á Alþingi í júní 2006. Nefndinni var meðal annars falið að gera tillögur um tilhögun á frjálsum aðgangi fræðimanna að framangreindum gögnum og er frumvarpið afrakstur starfs nefndarinnar.

Í frumvarpinu er skilgreint hverjir geti talist til fræðimanna í skilningi þess, en það eru þeir sem hafa stundað fræðirannsóknir í hug- eða félagsvísindum og birt rannsóknir sínar á viðurkenndum vettvangi. Í ljósi athugasemda sem frumvarpinu fylgja og viðræðna við gesti telur nefndin ljóst að hugtakið „fræðimaður“ skuli skýrt rúmt við beitingu laganna, enda hafa fjölmargir aðrir en menn með próf í eiginlegum hug- og félagsvísindum stundað sagnfræðilegar rannsóknir. Nefndin telur einnig að hugtakið „hug- og félagsvísindi“ eigi að túlka rúmt og bendir meðal annars á að þær heimildir sem um er að ræða kunna að verða fróðlegt rannsóknarefni fyrir lögfræðinga.

Nefndin ræddi hvort fræðimanni væri heimilt að hafa samband við menn sem hann kæmist að að hefðu sætt eftirliti og kanna hvort þeir vildu gefa upplýsingar þótt þeir hafi kosið að njóta nafnleyndar. Í frumvarpinu er ekki að finna sérstakt ákvæði um þetta. Nefndin lítur svo á að þetta sé tvímælalaust heimilt, enda verði gætt fyllsta trúnaðar, en telur ekki þörf á að taka það fram í sjálfum frumvarpstextanum.

Nefndin bendir á að eðlilegt sé að þeir sem vilja kynna sér gögn í hinu nýja öryggismálasafni geti gert það um leið og skráningu tiltekinna skjala sé lokið en þurfi ekki að bíða uns lokið er skráningu allra skilaskyldra skjala.

Nefndin telur rétt að náinn vandamaður látins einstaklings njóti sama réttar til aðgangs að gögnunum og hann hefði notið sjálfur skv. 1. mgr. c-liðar 1. gr. (19. gr.) og leggur því til breytingu þess efnis. Til að gæta samræmis leggur nefndin einnig til breytingu á 5. mgr. b-liðar 1. gr. (18. gr.) enda telur nefndin mikilvægt að tryggja réttarstöðu náins vandamanns látins einstaklings við þær aðstæður sem þar er fjallað um þannig að opinber birting umræddra upplýsinga verði háð samþykki. Með nánum vandamanni getur eftir atvikum verið átt við eftirlifandi maka hins látna, börn, barnabörn eða systkini. Leita ber eftir afstöðu þessara aðila eftir ákveðnu fyrirkomulagi. Ef maki veitir samþykki eða synjar þess er sú ákvörðun endanleg en að maka gengnum bæri að leita eftir afstöðu barna, síðan barnabarna ef engin börn eru á lífi og loks systkina ef ekki eru niðjar á lífi. Nefndin telur að ekki sé ástæða til að taka tillit til afstöðu til annars vandamanns nema sérstaklega standi á. Fallist Þjóðskjalasafn Íslands ekki á að þær aðstæður séu fyrir hendi er sú ákvörðun kæranleg til menntamálaráðherra.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð er grein fyrir hér að framan og lagðar eru til í sérstöku þingskjali nr. 1196.

Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Sigurrós Þorgrímsdóttir, Björgvin G. Sigurðsson, Dagný Jónsdóttir, Kjartan Ólafsson, Mörður Árnason, Kolbrún Halldórsdóttir, Jón Kristjánsson og sá sem hér stendur en hv. þm. Einar Már Sigurðarson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Eins og sjá má af nefndarálitinu var alger sátt innan nefndarinnar um að afgreiða málið með þessum hætti. Enginn hv. þingmanna gerir fyrirvara við afgreiðsluna, enda var samstarfið í nefndinni hvað þetta mál varðaði afskaplega gott og ber að þakka nefndarmönnum fyrir það.