133. löggjafarþing — 90. fundur,  15. mars 2007.

stjórn fiskveiða.

459. mál
[22:59]
Hlusta

Frsm. sjútvn. (Guðjón Hjörleifsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að ég og hv. þm. Jón Gunnarsson erum gamlir refir í sveitarstjórnum enda ræddum við mikið um þessi mál og ljóst var að menn voru nervusir í litlum sveitarfélögum að taka þetta að sér þar sem allir þekkja alla og jafnvel var það svo að kjörnir sveitarstjórnarmenn voru allir vanhæfir til að úthluta byggðakvóta. Ég hefði náttúrlega viljað sjá meira samráð við sveitarstjórnir í þessu máli en það virðist hafa gleymst því mér finnst þessi frumvörp sem unnin hafa verið fyrir nefndina einmitt yfirleitt hafa verið gerð í miklu samráði við hagsmunaaðila því þá er oft léttara að gera breytingar og snyrta þær til.

Menn greinir á og þeir hafa einmitt gert fyrirvara í frumvarpinu um Verðlagsstofu skiptaverðs um lágmarksverðið, hvernig það er fundið út. Sumum finnst það vera of lágt en við settum það þarna inn. Mér skilst á fulltrúum Landssamtaka smábátaeigenda að það sé einn aðili sem hafi gert athugasemdir, hann var ekki sáttur við þann byggðakvóta og veiðar miðað við það verð sem viðkomandi fiskvinnsla setti upp heima í héraði.