133. löggjafarþing — 90. fundur,  15. mars 2007.

stjórn fiskveiða.

459. mál
[23:11]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég spurði hvað þessi umræða ætti að taka langan tíma og hvenær henni ætti að ljúka. Nú upplýsti hæstv. forseti að fjórir væru á mælendaskrá. Ég verð að segja að í svo mikilvægri umræðu, í ljósi aðstæðna víða um land, finnst mér ekki við hæfi að ætla að ljúka málinu núna. Ég er sannfærður um að þegar umrætt samkomulag var gert hafi menn ekki trúað því að fundur ætti að standa um þetta mikilvæga mál fram á nótt.

Ég er gáttaður á Framsóknarflokknum, að vilja koma hlutum þannig fyrir. Ef flokkurinn meinar eitthvað með því að vera flokkur byggðanna. En það virðist breytt ef marka má rit formanns flokksins sem hann skrifaði á árum áður.

(Forseti (JónK): Ég vil minna hv. þingmann á að hann er að ræða um fundarstjórn forseta.)

Ég er einmitt að ræða um að mér finnst ekki við hæfi að hæstv. forseti láti þessa umræðu standa svona lengi fram á nótt í ljósi þess hversu mikilvæg hún er. Hún er mikilvæg fyrir hinar dreifðu byggðir og mér þykir eiga að sýna efninu þá virðingu að ræða um málið í dagsljósi. Það er afstaða mín og ég vona að hæstv. forseti taki tillit til þess. Þetta er ekki við hæfi.

Því miður virðist raunin oft sú að þegar ræða á sjávarútvegsmál er þeim komið svo seint fyrir á dagskránni. Það er eins og stjórnarflokkarnir þori ekki að ræða þau í björtu. Það er eins og þeir vilji komast hjá því að þessi umræða fari út í þjóðfélagið. Það er ekki hægt að standa þannig að verki. Þingið á að sýna þessum málum sóma. Það er ekki við hæfi, hæstv. forseti, að hafa málið svo seint á dagskránni.