133. löggjafarþing — 90. fundur,  15. mars 2007.

stjórn fiskveiða.

459. mál
[23:45]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. 10. þm. Suðurk. um að ég tel að vinnubrögðin í sjávarútvegsnefnd séu til mikillar fyrirmyndar og þar sé unnið mjög efnislega og út af fyrir sig biðst ég ekki afsökunar á því þó að frumvarp sem ég legg fram taki breytingum. Mér finnst það vera eðlilegur hlutur í starfi þingsins. Ég hef alltaf litið þannig á að það væri einmitt hlutverk nefndarinnar að fara yfir málin með það fyrir augum að reyna að bæta þau. Ég skal hins vegar viðurkenna að það var mér svona misjafnlega ljúft að bregðast við því sem fram kom en ég kaus hins vegar auðvitað að reyna að ná góðu samkomulagi um þetta mál sem skiptir heilmiklu.

Hv. þingmaður spurði mig nokkurra spurninga varðandi efnisatriði reglugerðarinnar. Drögum um reglugerðina var dreift í sjávarútvegsnefnd og ég get nefnt fáein atriði sem þar er m.a. tæpt á. Það er með samræmdum hætti gengið út frá því um skráningu þeirra báta sem koma til greina við úthlutun á byggðakvótunum. Það eru útskýrð þau sérstöku skilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda innan einstakra byggðarlaga sem gert er ráð fyrir þar. Það eru líka lagðar upp þær viðmiðanir um úthlutanir aflaheimilda til einstakra skipa þannig að t.d. ekkert fiskiskip geti fengið meira en 15 þorskígildislestir í sinn hlut til þess m.a. að tryggja að það verði tiltekin dreifing á byggðakvótanum innan byggðarlagsins. Þeim er sömuleiðis gert skylt að landa til vinnslu innan byggðarlagsins. Það er tryggt tiltekið lágmarksverð. Það eru settar fram kröfur um tryggingar fyrir greiðslum og þannig mætti áfram telja. Því tel ég að með þessu sé verið að reyna að tryggja eðlilega samræmingu milli einstakra verstöðva og um leið að tryggja að menn geti landað óhræddir og að byggðakvótinn nýtist sem best fyrir byggðarlögin.