133. löggjafarþing — 90. fundur,  16. mars 2007.

stjórn fiskveiða.

459. mál
[00:28]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er svo sem ekki miklu við þetta að bæta. Hæstv. ráðherra hefur skýrt sjónarmið sín í þessu. Ég get að mörgu leyti tekið undir þau. En hans er vandinn að vinna í þessu skrýtna og flókna kerfi þar sem réttlætið er yfirleitt á haus og vandfundin leiðin út úr ógöngunum sem menn hafa ratað í. Hæstv. ráðherra á því alla mína samúð að reyna að athafna sig í slíku kerfi.

Mig langar að vekja athygli á staðreynd sem blasir við, sérstaklega varðandi sérveiðarnar og þá kannski helst innfjarðarrækjuveiðarnar. Þeim veiðum hefur árum og áratugum saman verið stjórnað, að svo miklu leyti sem ég þekki til, algjörlega samkvæmt ráðleggingum Hafrannsóknastofnunar. Heildarkvótar hafa verið ákveðnir í samræmi við tillögur þeirra og veiðinni hefur verið stjórnað þannig að hún hefur verið nákvæmlega eins og lagt hefur verið til. Engu að síður er árangurinn af þessu öllu saman núll. Stofnarnir hrynja.

Þá hlýtur maður að benda á að jafnvel þó að áratugum saman sé farið eftir bestu vitneskju í fiskifræðilegum skilningi geta menn lent í þeirri stöðu sem gerst hefur varðandi innfjarðaveiðarnar, að þær eru nánast á öllum stöðum ógerlegar vegna þess að stofnarnir hafa hrunið. Hvað hefur þá gerst? Hefur ekki eitthvað brugðist? Eða blasir það við að það að stjórna veiðum með þeim hætti er engin trygging fyrir því að menn geti byggt upp stofna og varðveitt þá? Menn ættu kannski að horfa svolítið meira á þá staðreynd þegar ákvarðanir eru teknar um nýtingu á stofni eins og þorskstofninum.