133. löggjafarþing — 90. fundur,  16. mars 2007.

stjórn fiskveiða.

459. mál
[00:59]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Hv. þingmaður segir að það sé auðvitað vöxtur stofnsins sem mestu máli skiptir (SigurjÞ: Já.) og það er einmitt það sem sjómenn hafa verið að tala um upp á síðkastið. Þeir telja að þorskstofninn vaxi núna miklu hraðar en oft áður og hann sé betur á sig kominn en áður. Ég veit að hv. þingmaður er þeirrar skoðunar að ef stofninn er í lægð sé það vísasti vegurinn til að byggja hann upp að veiða meira til að skapa þá lífsrými fyrir þá einstaklinga sem eru eftir. Ég þekki alveg þessa líffræði sem hann heldur hér fram. Ég ætla ekkert að rífast við hann um það. Það sem ég var einfaldlega að segja er að mér finnst það ganga mjög illa upp þegar hv. þingmaður talar alltaf um að það sé áratuga árangursleysi, (Gripið fram í.) það hafi ekki skilað neinu. Hann talar núna á forsendum Hafrannsóknastofnunar, en það sem hv. þingmaður verður einfaldlega að reyna að svara er: Getur það verið að það sé þá þannig að þrátt fyrir þetta áratuga árangursleysi sem hann vísar til, og ég skal ekki þræta við hann að hann hafi verið að meina þá á forsendum Hafrannsóknastofnunar, sé það svo að þorskstofninn vaxi mjög hratt og stækki mjög mikið? Ég get ekki tekið undir það með hv. þingmanni að stærð þorskstofnsins skipti ekki neinu máli. Ég hefði haldið að það hlyti að skipta einhverju máli fyrir veiðina, afkomuna, veiðanleikann, hvernig gengi að veiða o.s.frv. hvort við værum með stóran eða lítinn stofn. Einhverju máli hlýtur það að skipta.

Ég er alveg sammála hv. þingmanni í því að auðvitað er þetta allt óvissu undirorpið. Það er ekki heiglum hent að mæla stofnstærð fisks, það vitum við alveg, en að tala eins og hv. þingmaður gerir er alveg út úr kú. Mér finnst að hv. þingmaður sé bara kominn í mótsögn hérna. Hann talar annars vegar um árangursleysi og á sama tíma víkur hann sér undan því að svara þessari ábendingu sem ég færði inn í umræðuna sem er ábending starfandi sjómanna sem telja að ástandið í hafinu, ástand þorskstofnsins, sé miklu betra en margir hafa talið, eins og hv. þingmaður hefur talið, (Forseti hringir.) eins og Hafrannsóknastofnun og mjög margir hafa talið.