133. löggjafarþing — 90. fundur,  16. mars 2007.

stjórn fiskveiða.

459. mál
[01:01]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Hvernig ætti sjávarútvegsráðherra þjóðar að meta árangur fiskveiðistjórnar? Ég hefði talið að hann ætti að meta hann út frá því hvað fiskveiðistjórnin skilar mörgum fiskum á land. Það er hið eina sem ábyrgur sjávarútvegsráðherra ætti að hugsa um. (Sjútvrh.: … margir sjómenn.) Hvað skilar þetta kerfi mörgum þorskum á land? Staðreyndin er sú, óumdeilt, að kerfið hefur skilað helmingi færri þorskum á land en fyrir daga þess. Skoðanir sjómanna á stærð stofnsins, eins og staðan er núna, skipta engu máli. Það sem skiptir máli er kvótinn sem hæstv. sjávarútvegsráðherra gefur út. Ef kvótinn sem hann gefur út samkvæmt þessu kerfi er lítill ætti það sömuleiðis að svara þeirri spurningu að kerfið er vont. Við í Frjálslynda flokknum teljum miklu skynsamlegra, að í stað þess að ákveða fyrir fram heildaraflann ætti að ákveða hversu mikið er sótt. Þá þarf ekki að hafa áhyggjur af því hvort fiskatalningin hafi verið rétt eða röng, það er einfaldlega svo að ef mikill fiskur er í sjónum gefur það mikinn afla. (Sjútvrh.: Þá er mikill fiskur í sjónum núna.) Þetta kerfi … Hvað segir hæstv. sjávarútvegsráðherra? (Sjútvrh.: Þá er væntanlega mikill fiskur í sjónum núna. Það veiðist vel.) Veiðist vel, þá er mikill fiskur í sjónum, þannig er það. (Gripið fram í.) Þá þurfum við ekki að hafa áhyggjur af því að ákveða fyrir fram hvað við ætlum að veiða á hverju ári. Þetta er svo vitlaust kerfi, þetta er álíka og að gefa út snemma að vori til hvað við ætlum að hafa mikla kartöfluuppskeru úr öllum kartöflugörðum landsins. (Forseti hringir.) Þetta gengur ekki upp og hefur ekki gengið upp. Þess vegna eiga menn að líta það mjög jákvæðum augum að fá tillögur og skoða þær ofan í kjölinn.