133. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2007.

staða fjármálastofnana.

[11:07]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Vegna þeirrar lygaþvælu sem Framsóknarflokkurinn með formann sinn í broddi fylkingar reynir nú í örvæntingu sinni að sveipa um óheilindi sín og staðfestuleysi og vesöld í stjórnarskrármálinu þá vil ég taka fram fáein atriði.

Núverandi formaður Framsóknarflokksins leiddi fram sátt í flokki sínum um að sett yrði í stjórnarskrána ákvæði um þjóðareign á auðlindum sjávar. Flokkurinn lofaði svo kjósendum þessu fyrir síðustu kosningar. Hann fékk Sjálfstæðisflokkinn til að lofa þessu líka eftir kosningar og formaður Framsóknarflokksins og þáverandi forsætisráðherra skipaði svo fyrir tveimur árum stjórnarskrárnefnd. Sjálfstæðisflokkurinn setti Þorstein Pálsson í nefndina. Þar með vissi Framsóknarflokkurinn að það stæði ekki til að standa við þetta. Það varð sem sagt niðurstaðan og þá komu fram öfl í Framsóknarflokknum sem vildu stoppa þetta mál af. Þetta lesist þannig að Sjálfstæðisflokknum var í raun og veru gefið neitunarvald í málinu inni í stjórnarskrárnefndinni.

Við sem fylgdumst með þessu töldum rétt að sannleikurinn fengi að koma í ljós og þrýstum á að málið kæmi fram. Þá hófst þetta sjónarspil sem þjóðin hefur orðið vitni að síðustu daga. Formaður Framsóknarflokksins, spámaðurinn sem leiddi flokkinn út úr eyðimörk ósættis í sjávarútvegsmálum birtist og sagði að þeir félagarnir í ríkisstjórninni mundu ná saman um þetta. Og sáttin birtist í frumvarpi sem þeir félagar fluttu einir og höfðu samið um það sín á milli, hleyptu engum að því og formaður Framsóknarflokksins kallaði eftir samstöðu annarra flokka um þetta innihald. Innihaldið var skoðað á þrem fundum í sérnefnd um stjórnarskrármál og enginn af þeim sérfræðingum sem kom til nefndarinnar taldi að það væri hæft í stjórnarskrána. Þannig var nú það. Á fjórða fundi nefndarinnar héldum við loksins að við fengjum tækifæri til að tala um að breyta þessu ákvæði. (Forseti hringir.) En þá birtust menn með yfirlýsingu um að nú væri búið að ná samkomulagi um að vísa þessu aftur inn í stjórnarskrárnefndina.