133. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2007.

staða fjármálastofnana.

[11:14]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli á því að það er raunveruleg hætta að sá sem hér talaði áðan verði næsti fjármálaráðherra þjóðarinnar. Það er raunveruleg hætta að hv. þm. Össur Skarphéðinsson eða Jóhanna Sigurðardóttir verði fjármálaráðherra þjóðarinnar. Hv. þm. Ögmundur Jónasson kom hér upp og er hreint og klárt búinn að fara yfir að það sé í góðu lagi að losna við þessa banka til þess að ná einhverri jöfnun (ÖJ: Hvaða útúrsnúningar eru þetta?) og ef við setjum þessa hluti í samhengi og spyrjum: Hverju voru bankarnir að skila, þeir 2.500 einstaklingar sem þar vinna, að skila í tekjuskatt bara fyrir fyrirtækið á síðasta ári? 11 milljörðum. (Gripið fram í.) Virðulegi forseti. Hér heyrist akkúrat hver tónninn er. Hvað verður gert? Það á að losna við þetta auðmannalið, þá 2.500 manns sem vinna hjá bönkunum. Þeir geta bara farið. (Gripið fram í: Hvaða skilaboð voru þeir að senda bönkunum?) Svo við setjum þetta í eitthvert samhengi þá komu 30 milljarðar í skatttekjur af þessum stofnunum á síðasta ári. (Gripið fram í.) Fjármálageirinn er orðinn stærri en sjávarútvegurinn. Aldrei fyrr hefur verið jafnmikið tækifæri fyrir ungt fólk vegna þess að við erum komin með stóran og öflugan fjármálageira sem er í útrás. (Gripið fram í.) Öll framlög til vegamála, 2007–2010 eru 20 milljarðar, bara rekstrarkostnaður háskólans á einu ári er 8 milljarðar, tekjuskattur þessara fyrirtækja á einu ári borgar það og rúmlega það. En hér hóta vinstri menn hreint og klárt að við ætlum bara að losna við þessi fyrirtæki, losna við þau. Ekkert mál, þá náum við alvörujöfnun, (Forseti hringir.) enginn vöxtur eða framför.