133. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2007.

staða fjármálastofnana.

[11:19]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegi forseti. Þakka forseta fyrir viðeigandi athugasemd. Ríkisstjórnin er fallin og í fyrsta sinn í sögunni virðast Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur ekki geta myndað meiri hluta á Alþingi eftir kosningar vegna þess að aldrei í sögunni hafa þingmenn þessara flokka haldið jafnilla á spilunum.

Formaður Framsóknarflokksins er kolfallinn á fyrstu vorprófum sínum í stjórnmálunum. (Gripið fram í: Er Ingibjörg inni?) Hér koma hv. þingmenn stjórnarliðsins í örvæntingu og reyna með óvenjulega rætnum rógi, og ég vil leyfa mér að segja skítkasti í garð starfsbræðra sinna, að draga úr trausti og trúverðugleika þeirra og þingsins og þó einkum sér sjálfra.

Það er hætta á því að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og Össur Skarphéðinsson verði fjármálaráðherrar, segja hér þingmenn. Vissulega. Það er vissulega möguleiki á því að þeir glæsilegu starfsbræður okkar, forustumenn jafnaðarmanna í áratugi (Gripið fram í: Jóhanna er nú …) sem hér höfðu forgöngu um að við yrðum hluti af Evrópska efnahagssvæðinu, þvert gegn vilja Framsóknarflokksins, að við yrðum hluti af 400 milljóna markaði og lögðu hér grunninn að útrás íslenskra fyrirtækja sem við njótum enn þá ávaxtanna af — já, það er hætta á því að þessir glæsilegu fulltrúar okkar verði í fjármálaráðuneytinu að loknum kosningum.

Eina hættan fyrir fjármálakerfið í landinu segja greiningarfyrirtækin hvert á fætur öðru, alþjóðleg sem innlend, er ríkisstjórn Íslands. Síðast í morgun segir Fitch Ratings að vandinn í íslenska hagkerfinu og það sem leiðir til lækkunar á lánshæfi Íslands sé að ríkisstjórn Íslands geti ekki haldið utan um aðhaldið sem þarf að vera í ríkisfjármálunum á kosningaári. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) Það minnki og minnki og þess vegna er hættan ríkisstjórnin en ekki hinir tilvonandi glæsilegu fjármálaráðherrar okkar (Forseti hringir.) jafnaðarmanna. (Gripið fram í: Þingmaðurinn fer rangt með.)