133. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2007.

staða fjármálastofnana.

[11:24]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Það verður nú að segjast eins og er að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa auðvitað reynt að dreifa þessari umræðu til að forðast að ræða efni málsins. Það sem ég sagði í fyrri ræðu minni var að við þyrftum að ræða það hér hvort aðrir hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar ætluðu að styðja hv. þm. Ögmund Jónasson og hv. þm. Össur Skarphéðinsson í því að berja á bönkunum, berja á fjármálafyrirtækjunum og hrekja fjármálafyrirtækin úr landi. Það er það sem þarf að ræða. (ÖJ: Ertu að tala um Finn Ingólfsson?)

Það er merkilegt, hæstv. forseti, að menn skuli vilja dreifa umræðunni með þessum hætti. (Gripið fram í.) (Gripið fram í: … Ólafsson.) (Gripið fram í: Ertu að tala um …) Það er nefnilega þannig, hæstv. forseti, að það glittir víða í gamla afturhaldið frá Alþýðubandalaginu. Þessir hv. þingmenn, Ögmundur Jónasson og Össur Skarphéðinsson, eru báðir gamlir forustumenn úr Alþýðubandalaginu og báðir núna forustumenn í stjórnarandstöðuflokkunum.

Það verður að segjast alveg eins og er að meira að segja í Rússlandi mundi mönnum ekki detta svona vitleysa í hug. Það hlýtur að vera umhugsunarefni (Gripið fram í: … Framsóknarflokknum …) þegar jafnvel sjálfur Pútín Rússlandsforseti er orðinn framsýnni en þessir þingmenn gamla Alþýðubandalagsins, Ögmundur Jónasson, Össur Skarphéðinsson og Steingrímur J. Sigfússon. Það er umhugsunarefni, hæstv. forseti. (Gripið fram í.)