133. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2007.

Þjóðskjalasafn Íslands.

642. mál
[11:39]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Fyrir tæpu ári svipti sagnfræðingurinn Guðni Th. Jóhannesson hulunni af njósnum og hlerunum á íslenskum stjórnmálamönnum og verkalýðsforustumönnum, íslenskum stjórnmálamönnum af vinstri væng stjórnmálanna, þekktum og nafnkunnum mönnum. Fram komu upplýsingar um það að um mjög grófar og umfangsmiklar hleranir hefði verið að ræða og að mjög harkalega hefði verið brotið á friðhelgi þessara manna, mjög gróf og alvarleg friðhelgisbrot.

Hér hefur náðst mjög ásættanleg niðurstaða um fyrirkomulag, varðveislu og aðgang að þessum gögnum. Hugtakið fræðimaður er skilgreint með mjög viðunandi hætti þannig að alþýðusagnfræðingar og fræðimenn úr mörgum ólíkum greinum geta óskað eftir aðgangi að safninu og komið að rannsókn á þessum gögnum sem skipta mjög miklu máli og draga fram hvaða atburðir áttu sér stað hér á dögum kalda stríðsins og hvernig þessum hlutum var fyrir komið. Því er það fagnaðarefni að þessi niðurstaða náðist í hv. menntamálanefnd.