133. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2007.

almenn hegningarlög.

465. mál
[12:12]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Það er skemmst frá því að segja að ég styð þetta frumvarp. Það er mikil bót fyrir þá sem hafa lögregluvald með höndum og nær til fleiri en lögreglumanna eins og fram hefur komið, til starfsmanna Tollgæslunnar og Landhelgisgæslunnar og síðan einnig fangavarða. Það er mjög mikilvægt að tryggja réttaröryggi þessara manna og það kemur einfaldlega fram í fylgiskjali með frumvarpinu að það ástand sem hér ríkir er óviðunandi. Það er vitnað í dóma þar sem fram kemur að árásarmaður sem sparkar í andlit lögreglumanns, brýtur gleraugu hans og félagi lögreglumannsins jafnvel bitinn í sömu árás þarf í raun ekki að sæta refsingu. Hann er dæmdur í fangelsi í 90 daga en fullnustu refsingar er frestað skilorðsbundið í tvö ár. Það eru allar líkur til þess að viðkomandi árásarmaður sleppi við að taka afleiðingarnar af svona hrottalegum árásum sem geta haft í för með sér lífshættulegan skaða. Það er óviðunandi og þessu þarf að breyta. Liður í því er að hækka refsirammann og þessi breyting mun þá hafa það í för með sér.

Ég vil hins vegar taka fram að ég er almennt ekki fylgjandi því að við leysum öll okkar þjóðfélagslegu vandamál með því að hækka refsingar og varpa fólki í fangelsi, hvort sem það er fyrir misnotkun fíkniefna eða ýmis önnur brot. Við verðum að leitast við að leysa það sem miður fer með margvíslegum hætti og takast ekki einungis á við vandamál þjóðfélagsins með því að varpa fólki í fangelsi. Samt sem áður verður að líta til þess að það ástand sem ríkir hér, að hægt sé að ráðast á lögreglumenn, tollverði og fangaverði án þess að það hafi einhverjar afleiðingar í för með sér fyrir viðkomandi árásarmenn, er ólíðandi og þess vegna verðum við að breyta þar. Þetta er að mínu viti liður í því.

Ég ætla ekki að hafa lengra mál um þetta frumvarp enda lít ég svo á að það sé nokkuð góð sátt um að þessu þurfi að linna í samfélaginu. Það leiðir auðvitað hugann að því hvernig er með svipuð ofbeldisbrot gegn almenningi. Mig grunar að víða sé pottur brotinn hvað það varðar. Ofbeldismenn virðast því miður komast upp með að ráðast á fólk án þess að það hafi í för með sér afleiðingar fyrir þá. Það er ekki tekið með nægilega skýrum hætti á ofbeldismönnum sem ráðast á fólk, hvort sem það eru lögreglumenn, tollverðir eða hinn almenni borgari. Það er eitt af því sem við eigum ekki að sætta okkur við, ofbeldi og síst gagnvart lögreglumönnum.