133. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2007.

íslenskur ríkisborgararéttur.

464. mál
[12:42]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Hér er á ferðinni frumvarp um breytingu á lögum um íslenskan ríkisborgararétt. Ég fór ítarlega yfir afstöðu Samfylkingarinnar til þessa máls við 2. umr. en mig langar hins vegar að koma inn á nokkur atriði við 3. umr. málsins og það ber kannski hæst í máli mínu í dag við þessa umræðu að ég mun mæla fyrir breytingartillögu sem ekki var mælt fyrir við 2. umr.

Eins og komið hefur fram, bæði í greinargerð og í máli mínu áður og annarra hv. þingmanna, er verið að ákveða hér að mörgu leyti ákveðin nýmæli sem lúta að reglum um veitingu ríkisborgararéttar. Í sumum tilfellum stóðum við frammi fyrir því að það voru jafnvel gerðar vægari kröfur til að fá búsetuleyfi en að fá ríkisborgararétt og það virðist vera eitt af markmiðum þessa frumvarps að samræma þar á milli. Hins vegar eru hér nokkur atriði sem eru umdeild ef svo mætti segja og ég dró fram sérstaklega í máli mínu við 2. umr. málsins. Ég ætla ekki tala eins lengi og ég gerði þá þar sem komið hefur verið inn á þetta áður. Hins vegar er rétt að draga það fram að 3. tölul. c-liðar 5. gr. sem gerir ráð fyrir að umsækjandi ríkisborgararéttar þurfi að standast próf í íslensku er nýmæli. Reyndar frestast gildistaka þessa töluliðar til 2009 en engu að síður er ætlast til að við samþykkjum þetta hér. Í þessum tölulið er mælt fyrir um að ráðherra hafi heimild til að setja reglugerð um undanþágu frá þessu skilyrði.

Ég kallaði ítrekað eftir því í allsherjarnefnd að fá drög að þeirri reglugerð eða að fá einhverja hugmynd um hvers konar undanþágur væru væntanlegar. Ekki var orðið við því og með þeim rökum að slíkt væri einfaldlega ekki til á þessum tímapunkti. Mér finnst bagalegt að hafa ekki fengið þær upplýsingar. Það er líka alveg ljóst að ef við ætlum að gera það að skilyrði fyrir veitingu ríkisborgararéttar að einstaklingar þurfi að standast próf í íslensku þá þarf námsframboð að sjálfsögðu að vera fyrir hendi og ég held að flestir séu sammála um að svo er ekki í dag. Hins vegar liggur fyrir pólitískur vilji eflaust allra stjórnmálaflokka og þar á meðal ríkisstjórnarflokkanna um að bæta framboð á kennslu í íslensku og það er fagnaðarefni en það er auðvitað forsenda fyrir því ef við ætlum að setja slík skilyrði eins og hér er ætlast til.

Það þarf líka að huga að því að gera kennsluna aðgengilega fyrir viðkomandi hópa og þar er lykilatriði í mínum huga að kennslan þurfi að eiga sér stað á vinnutíma. Ekki er hægt að ætlast til að þeir einstaklingar sem eru í þessu ferli fari í íslenskukennslu á kvöldin eftir vinnutíma, enda held ég að það mundi ekki skila eins góðum árangri. Hér þarf að huga sérstaklega að því hvernig við framkvæmum þetta skilyrði, íslenskuprófið, kennslu o.s.frv. Undanþágurnar sem ráðherra mun hafa vald til að ákveða skipta sömuleiðis máli, hvaða hópar munu geta fengið undanþágu frá þessu skilyrði. Það er auðvitað langur listi sem hægt er að ímynda sér að væri réttlætanlegt að fengi undanþágu frá þessu skilyrði. Þetta er eitt af þeim atriðum sem við skoðuðum sérstaklega og mér finnst rétt að draga fram.

Ég fór ítarlega við 2. umr. yfir athugasemdir Rauða krossins, Mannréttindaskrifstofu Íslands og Alþjóðahúss hvað þetta varðar en það er eftirtektarvert að meginhagsmunaaðilar þessa málaflokks, Mannréttindaskrifstofan, Rauði krossinn og Alþjóðahúsið, eru mjög einhuga um þær athugasemdir sem þessir aðilar hafa við frumvarpið. Ein af athugasemdunum laut að því að heimila þyrfti ráðherra að taka sérstakt tillit til aðstæðna flóttamanna og fólks sem veitt hefur verið dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Við í stjórnarandstöðunni teljum ástæðu til að verða við því og höfum þess vegna lagt fram breytingartillögu hvað þetta varðar. Breytingartillagan er á þskj. 1138 og þar stendur, með leyfi forseta:

„Við 5. gr.

a. Við a-lið bætist ný málsgrein sem verði 3. mgr. og orðist svo:

Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. er dómsmálaráðherra heimilt að taka sérstakt tillit til aðstæðna flóttamanna og fólks sem veitt hefur verið dvalarleyfi af mannúðarástæðum.“

Efnislega er þessi breyting svipuð og þær athugasemdir sem Mannréttindaskrifstofa Íslands, Rauði krossinn og Alþjóðahúsið gerðu, að setja þyrfti þessa heimild í lögin. Ég átta mig fyllilega á því að þeir einstaklingar sem uppfylla ekki skilyrðin eiga alltaf það úrræði að geta leitað til þingsins. Það breytist ekki með þessu frumvarpi. Varðandi þessa tvo hópa, þ.e. flóttamenn annars vegar og fólk sem veitt hefur verið dvalarleyfi af mannúðarástæðum hins vegar, þá tel ég ríkar ástæður til að hafa það svigrúm hjá ráðherra að hægt sé að taka tillit til aðstæðna þeirra.

Það er líka rétt að huga að því að þetta eru ekki stórir hópar. Þær upplýsingar komu fram í allsherjarnefnd að einungis einn einstaklingur hefur fengið dvalarleyfi sem pólitískur flóttamaður á Íslandi undanfarinn áratug. Þar fyrir utan eru auðvitað hinir svokölluðu kvótaflóttamenn sem samið er sérstaklega um. Við fengum þær upplýsingar varðandi fólk sem fengið hefur dvalarleyfi af mannúðarástæðum að það séu hugsanlega fimm einstaklingar á ári og stundum jafnvel enginn. Hér er því ekki verið að opna á almenna heimild fyrir stóra hópa hvað þetta varðar. Það er einfaldlega verið að taka tillit til sérstöðu þessara hópa sem er alveg augljós og það er ástæðulaust að fara sérstaklega í það hver sérstaða flóttamanna er annars vegar og fólks sem hefur fengið dvalarleyfi af mannúðarástæðum hins vegar. Okkur finnst einfaldlega rétt að bæta þessu í frumvarpið og gera þetta að lögum. Þetta rímar 100% við álit þeirra sem vinna með útlendingum og innflytjendum og þess vegna ættum við að taka þetta skref að okkar mati.

Seinni liður breytingartillögu okkar lýtur að 5. tölul. 1. mgr. c-liðar frumvarpsins sem fjallar um eitt af skilyrðunum til að fá ríkisborgararétt en þar segir, með leyfi forseta: „Umsækjandi geti framfleytt sér hérlendis og hafi ekki þegið framfærslustyrk frá sveitarfélagi sl. þrjú ár.“ Í núgildandi lögum eru þessi viðmið tvö ár. Við sjáum ekki ástæðu til að lengja þetta tímabil í þrjú ár og leggjum því til þá breytingu að í staðinn fyrir þrjú ár komi tvö ár, eins og nú er.

Það er einnig rétt að það komi fram að Samfylkingin studdi ekki þessi skilyrði við 2. umr. Þá er ég að tala um skilyrðin um að umsækjendur hafi staðist próf í íslensku og þetta skilyrði í 5. tölulið sem lýtur að því að einstaklingur megi ekki hafa þegið framfærslustyrk frá sveitarfélagi síðustu þrjú ár. Við studdum ekki heldur 4. tölulið við 2. umr. um að ekki megi veita einstaklingi sem gert hefur verið árangurslaust fjárnám hjá síðustu þrjú ár ríkisborgararétt. Afstaða okkar rímar sömuleiðis við afstöðu þeirra hagsmunaaðila sem ég talaði um. Að sjálfsögðu þurfa að vera ákveðin skilyrði fyrir veitingu ríkisborgararéttar hér á landi og það er auðvitað ákveðið hagsmunamat hversu langt á að ganga en við höfum einfaldlega ákveðið að taka tillit til þessara athugasemda sem eru vel rökstuddar í umsögnum þeirra aðila sem hér hafa verið taldir upp. Vonandi verður meiri hlutinn sammála okkur í dag þegar við greiðum atkvæði um þessar tvær breytingar sem við í Samfylkingunni leggjum til í breytingartillögu okkar.

Það voru líka ákveðnar breytingar afgreiddar við 2. umr. sem öll nefndin var sammála um, sem voru mjög jákvæðar breytingar. Í upprunalega frumvarpinu var heimild til að svipta einstakling ríkisborgararétti en þar hafði mönnum láðst að lesa stjórnarskrána þar sem þetta er einfaldlega bannað. Það var ánægjulegt að við náðum saman í allsherjarnefnd að taka þetta út, enda er stjórnarskráin mjög skýr hvað þetta varðar, ekki er hægt að svipta einstakling íslenskum ríkisborgararétti ef hann er á annað borð búinn að fá hann. Það var samhljóða afstaða okkar í allsherjarnefnd og þingsins, þar sem þetta var samþykkt í vikunni, að taka þetta út.

Það er líka ánægjulegt við 6. tölul. b-liðar 5. gr. frumvarpsins að tekið er tillit til flóttamanna, að flóttamaður sem hefur verið búsettur hér sem slíkur í fimm ár geti fengið íslenskan ríkisborgararétt. Hér bættum við einnig við fólki sem fengið hefur dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Þetta er breyting sem var þverpólitísk samstaða um. En eftir stendur breytingartillagan sem við leggjum fram og kemur vonandi til afgreiðslu í dag eða á morgun, annars vegar um að dómsmálaráðherra sé heimilt að taka sérstakt tillit til aðstæðna flóttamanna og fólks sem hefur fengið hér dvalarleyfi af mannúðarástæðum og hins vegar um skilyrðið að umsækjandi hafi ekki þegið framfærslustyrk frá sveitarfélagi síðustu þrjú ár verði tvö ár, þ.e. við teljum ekki ástæðu til að þrengja þetta skilyrði með þeim hætti sem frumvarpið leggur til og við höfum ekki fengið nein sérstök rök fyrir því af hverju miða á við þrjú ár. En aftur tek ég fram að Samfylkingin og Vinstri grænir, að ég tel, studdu ekki þessa þrjá liði, 3., 4. og 5. tölulið í c-lið 5. gr. Það er ágætt að það komi fram.

Annað er ágætt í þessu frumvarpi eins og í flestum frumvörpum. Það er alltaf hægt að finna eitthvað jákvætt en við viljum iðulega ganga aðeins lengra en ríkisstjórnarflokkarnir og gera málin enn betri og vonandi verða þær breytingar sem við leggjum til samþykktar því að þær munu gera þetta frumvarp að enn betra máli.