133. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[13:58]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. landbúnaðarráðherra fyrir að koma til þessarar umræðu og veitir ekki af. Umræðan er mikilvæg.

Það þarf að gefa meiri gaum að markaðsstarfi erlendis, ég held að það geti skilað okkur mjög miklu. Það skiptir miklu máli fyrir íslenskan landbúnað að við höfum úthald til að standa í verkefninu á meðan við erum að ná þeim árangri sem við stefnum að. Við þurfum því að hafa markmiðssetningar algjörlega á hreinu. Hvað erum við tilbúin til að setja mikla fjármuni í þetta og hverjar eru væntingarnar? Hverju viljum við sjá að markaðsstarfið hafi skilað t.d. eftir áratug ef við tölum um prósentur, aukningu í prósentum talið á íslenskum búvörum sem fara á þennan markað, hvort sem það er skyr, smjör eða kjöt? Hvaða markmiðum teljum við okkur þurfa að ná til að réttlætanlegt sé að standa í þessu tiltekna markaðsstarfi erlendis?

Það er að sjálfsögðu svolítið á floti fyrir mörgum hvað við erum að gera þarna, hvað við erum að setja mikla fjármuni í þetta og hvaða væntingar við gerum okkur um árangur. Getum við búist við því að framleiðsla á ákveðinni kjöttegund aukist um 50%, 100% á tíu árum eða tuttugu árum? Landbúnaðurinn er svo lítill hjá okkur að það þarf kannski ekki að opnast svo stór gátt á markaði, t.d. í Bandaríkjunum, til að við getum farið að framleiða það sem telst gígantískt magn á okkar mælikvarða. Það væri mjög fróðlegt að fá fram hjá hæstv. landbúnaðarráðherra einhverja slíka pólitíska markmiðssetningu um hvað við eigum að setja í þetta af fjármunum og hvað við viljum fá út úr starfinu eftir nokkur ár. Þá getum við staðið saman um að standa í lappirnar og ljúka verkefninu þar til það er orðið ábótasamt.