133. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[14:02]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég held einmitt að forsendur séu fyrir slíku markaðsstarfi. Þær felast í því að við drögum það skýrt fram hverjar séu væntingarnar og markmiðin með því að ráðast í þetta. Það er auðvelt að kjafta starf af þessu tagi niður og gera lítið úr því ef ekki liggja fyrir allar upplýsingar. Það þarf að draga skýrt fram hvernig standa eigi að málum og hvað við viljum fá út úr starfinu. Ef starf af þessu tagi sem er unnið markvisst og af metnaði og krafti, ég efast ekkert um að þetta starf er þannig innt af hendi, skilar allt í einu verulegum árangri getur það bókstaflega haft byltingarkennd áhrif á íslenska búvöruframleiðslu. Það er bara þannig.

Auðvitað getur verið að starfið skili ekki árangri. Við sem höfum staðið í hestamennsku og hrossarækt, eins og ég hef gert meðfram öðrum störfum og námi alla mína tíð, vitum að útflutningur á íslenska hestinum erlendis hefur skipt gífurlegu máli fyrir íslenskan landbúnað og íslenska hrossarækt. Tugþúsund íslenskra hesta, taminna og ótaminna, hafa verið flutt út. Það markaðsstarf sem áður var unnið af frumkvöðlum og grasrótarfólki hefur verið unnið markvissar nú og hefur orðið miklu öflugri grein sem stutt hefur verið við á síðustu árum. Ég er að mörgu leyti ánægður með hvernig hæstv. landbúnaðarráðherra hefur stutt við bakið á þeirri grein. Það er til fyrirmyndar. Það hefur skilað árangri. Það þarf að byggja yfir þá grein hvort sem það er með beinum hætti, t.d. reiðhallir til að hægt sé að stunda greinina allt árið, eða með eflingu markaðsstarfs erlendis o.s.frv.

Það má ekki vanmeta mikilvægi markaðsstarfs erlendis fyrir íslenskan landbúnað í heild sinni. Við megum ekki láta kjafta okkur frá góðum verkefnum. En við verðum að hafa algerlega á hreinu hver markmiðin eru, hverjar væntingarnar eru og hvaða ábata við teljum okkur geta náð, og þá á að fara í verkefnið af fullum krafti.