133. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[14:26]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var athyglisverð ræða eins og ræður þingmannsins hv. eru um þessi mál sem önnur. Það er dapurlegt að heyra hann lýsa þeim svikum sem hann upplifir greinilega af hendi Sjálfstæðisflokksins til stétta og byggða, að stétt með stétt og byggð með byggð, það væri búið. Það mátti skilja á hv. þingmanni að það hafi verið svik hvernig Sjálfstæðisflokkurinn kaus í þessu máli í gær.

Ég spurði hins vegar sérstaklega eftir því við 1. umr. um málið hvaða afleiðingar hæstv. landbúnaðarráðherra hefði talið að algjört afnám útflutningsskyldunnar mundi hafa. Svörin voru þau að þau voru talin vera hverfandi og lítil

En auðvitað er það svo að komi upp það ástand í greininni sem hv. þingmaður lýsir, þá verður fyrirkomulag stuðningsins að sjálfsögðu endurskoðað. Svo hefði ég haldið að það væri miklu eðlilegra að styrkja með beinum og skýrum hætti við framleiðsluna í stað þess að hafa hluti eins og útflutningsskylduna, sem getur komið þannig fram að framboð á vörunni haldist niðri og þar með verðið uppi. Það er því alveg hægt að færa rök fyrir því að það sé mjög ósanngjarnt gagnvart neytendum þó svo að það gæti verið keppikefli fyrir framleiðendur að geta gripið til hennar.

En komi þetta ástand upp þegar skyldan fellur niður að fullu, þ.e. eins og hv. þingmaður lýsir, þá þarf að endurskoða stuðningsfyrirkomulagið og skoða hvort þá þurfi að rífa í einhvern neyðarhemil og þá með hvaða hætti það væri gert, og hvort þá þurfi að endurskoða samninginn eða endurskoða hvernig við styrkjum greinina. Ég tel að það hafi ekki þurft að hafa þann neyðarhemil inni eins og hv. þingmaður lýsir og um það var ekki sátt í þinginu, eins og kom mjög dramatískt fram í atkvæðagreiðslunni í gær.

Þannig að náum við ekki markmiðum okkar sem eru sameiginleg hjá mér og hv. þingmanni, um að (Forseti hringir.) styrkja og styðja við byggðir og bú og búvöruframleiðslu, þá verðum við að sjálfsögðu að endurskoða það.