133. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[14:50]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er þetta sem gerir íslenska þingið kannski svolítið sérstakt. Hér er verið að ræða um samninga og góðan samning við sauðfjárbændur og þá kemur upp umræða um raforkuverðið.

Það er náttúrlega ljóst að núverandi ríkisstjórn hefur veitt mikinn stuðning inn á köldu svæðin með framlögum úr ríkissjóði til að greiða niður raforku á þeim svæðum. Hitt er annað mál að þarna kom til reglugerð samkvæmt EES-samningi og tók hér yfir svæðið. Ég hef þetta ekki á minni könnu og ætla ekki að svara fyrir það í þessari umræðu, enda heyrir málaflokkurinn ekki undir mig.

Ég hef staðið í því, hv. þingmaður, að reyna að bæta lífskjör bænda og styrkja þau á öllum sviðum og er sannfærður um að staða bænda er bæði efnahagslega önnur og betri en hún var fyrir átta árum. Það kom í ljós í Gallup-könnun að þjóðin stendur mjög fast að baki bænda og ég er stoltur af því og ánægður með þá stöðu fyrir þeirra hönd því að þeir eru eitthvert duglegasta og besta fólkið í landinu.