133. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[14:57]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst hver ósk Bændasamtakanna var. Það er alveg ljóst hvað sagt var þegar síðasti samningur var gerður, að nú væri að bresta á það samkomulag í heimsviðskiptastofnuninni að allir styrkir yrðu að fara út. Það var líka sagt núna vitandi að Evrópa er með þessa styrki og að þeir eru í gildi alveg út árið 2014.

Það var engin nauður sem rak til þess, virðulegi forseti, að gefa ekki bændum kost á því að halda þessu áfram. Embættismennirnir í landbúnaðarráðuneytinu virðast ráða ferðinni, þeir vilja losna við þessa styrki og eru að vinna að því og þeim tókst það.

Ég er að fara fram á það, virðulegi forseti, að þingið breyti þessu til þess að við eigum þennan varnagla ef svo fer, sem ég er ekkert viss um að verði, að á því þurfi að halda.

Það liggur hins vegar líka fyrir að við vitum ekkert (Forseti hringir.) hvort nokkurn tíma verða samningar hjá WTO. Það getur vel verið að þeir verði aldrei.