133. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[15:22]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér við 3. umr. lög um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, það sem fyrst og fremst lýtur að lagabreytingum til þess að standa að baki nýgerðum samningi milli ríkisins og sauðfjárbænda. Hv. þm. Þuríður Backman fór yfir nokkur atriði sem ég hefði viljað minnast á varðandi mikilvægi sauðfjárræktarinnar, sauðfjárbúskaparins, fyrir atvinnulíf og búsetu í landinu. Það er að sjálfsögðu ekki einkamál sauðfjárbænda eða þeirra byggða þar sem sauðfjárrækt er stunduð, þetta er jú mál allra landsmanna. Það er ánægjulegt til þess að vita í nýlegri skoðanakönnun sem Gallup gerði hve sterkur samhugur er meðal þjóðarinnar gagnvart því að halda hér öflugum íslenskum landbúnaði og hve sterkur samhugur er um að hann sé stundaður, umhverfisvænn, í sátt við landið, í sátt við nýtingu auðlindanna á sjálfbæran hátt. Það er líka ánægjulegt að sjá hve neytendur og allur almenningur í landinu leggur ríka áherslu á að eiga aðgang að hollum og góðum landbúnaðarvörum á sem besta verði. Það má eiginlega líta á það sem forréttindi á vissan hátt að eiga aðgang að hreinum og hollum matvælum, eins og íslenskar landbúnaðarvörur eru.

Þessi eindregna ósk samfélagsins um að staðinn sé vörður um íslenskan landbúnað hlýtur að hafa áhrif á þær lagasetningar sem við setjum á Alþingi gagnvart íslenskum landbúnaði, gagnvart rekstrar- og starfsskilyrðum, framleiðsluöryggi í íslenskum landbúnaði, hvaða lög og reglur við setjum. Það er mikilvægt að halda utan um og standa undir þeirri ábyrgð, skyldum og væntingum, sem íslenskt samfélag gerir til þingsins um að það standi að baki íslenskum landbúnaði. Hagsmunir landbúnaðarins og hagsmunir einstaklinganna og fjölskyldna þeirra sem stunda landbúnað fara saman með hagsmunum neytenda hvar sem er á landinu enda eru bændur og fjölskyldur þeirra líka mikilvægir neytendur landbúnaðarafurða. Þá er líka mikilvægt í umræðunni hér og verður aldrei ofgert að undirstrika mikilvægi matvælavinnslu og iðnaðar hvers konar sem tengist úrvinnslu og meðferð landbúnaðarvara. Einmitt á þeim svæðum þar sem atvinnulíf er hvað brothættast er þessi úrvinnsla hvað mikilvægust. En samt verður að undirstrika að gagnvart þjóðinni allri, gagnvart öllum íbúum landsins, er mikilvægt að við höfum innlendan og öflugan matvælaiðnað.

Það er undir þessum formerkjum sem við ræðum samning sem verið er að gera milli ríkisins og sauðfjárbænda. Sauðfjárbændur, sem þekkja stöðu sinnar greinar náttúrlega best, lögðu í upphafi samningsgerðarinnar, eða samningsferlisins, fram sín samningsmarkmið og áherslur sem þeir töldu að væri mikilvægt að hafa til grundvallar við samningsgerðina, bæði frá hagsmunum þeirra séð og ekki hvað síður frá hagsmunum neytenda og sameiginlegum hagsmunum þjóðarinnar allrar.

Svo virðist sem engin þeirra samningsmarkmiða sem þeir lögðu upp með hafi náð fram að ganga, það höfum við rætt um. Áður en ég kem að því atriði sérstaklega vil ég undirstrika það sem verður kannski aldrei of oft gert, að í þjóðarsáttarsamningunum svokölluðu sem gerðir voru, þar sem allir tóku höndum saman, bændur, launþegar, atvinnurekendur og ríkisvaldið, í að stöðva óðaverðbólgu, koma á jafnvægi í verðlagsmálum, koma á jafnvægi í efnahagslífi þjóðarinnar, í þjóðarsáttarsamningum sem skiptu gríðarlega miklu máli áttu bændur ekki hvað sístan hlut að máli. Þeir lögðu fram mikla fórn og ekki síst sauðfjárbændur sem höfðu kannski af hvað minnstu að taka. Þar var boðin verðstöðvun og hreinlega lækkun á umsömdu verði til þess að þjóðarsáttin mætti verða — því auðvitað höfðu þeir hagað því eins og aðrir, að stöðva óðaverðbólgu og það óöryggi sem var í efnahagsmálum þjóðarinnar.

Margar aðrar stéttir hafa fengið þetta bætt, fengu þetta bætt á seinni stigum að hluta eða öllu leyti, þ.e. þá skerðingu sem þeir tóku á sig hvað varðar laun eða önnur kjör. Ég held að ef grannt er skoðað sjái menn að bændur, ekki hvað síst sauðfjárbændur, hafa kannski fengið hvað minnstan hlut til baka, sem hafði þó verið lofað að kæmi þegar efnahagsástandið leyfði. Öllum var lofað því að þá mundu þeir fá þessa kjaraskerðingu eða frestun á kjörum til baka eftir því sem tök væru á. Þessar endurgreiðslur eða endurbætur á kjörum sauðfjárbænda skiluðu sér ekki að fullu. Ég held því að þegar grannt er skoðað muni menn sjá að sauðfjárbændur og bændur um allt land hafa kannski lagt mest af mörkum varanlega til þess að koma á verðhjöðnun og stöðva óðaverðbólguna á sínum tíma. Mér finnst stjórnvöld kannski ekki gera sér fyllilega grein fyrir þessu eða halda því á lofti sem skyldi og huga að því þegar við nú erum að semja um umgjörð þessarar greinar.

Eins og hæstv. landbúnaðarráðherra sagði í ræðu sinni áðan hafa bændur staðið við sína samninga. Þeir hafa tekið á sig skuldbindingar en ég minnist þess ekki að bændur hafi ekki staðið við þá samninga sem þeir hafa gert þó að það hafi oft og tíðum verið þeim erfitt að gangast undir ýmsar þær skyldur og kvaðir sem þeir samningar gátu haft í för með sér. Nú hafa mjólkurframleiðendur, eins og við þekkjum, tekið á sig verðstöðvun til að takmarka verðhækkanir á matvöru í landinu. Ég hef ekki séð aðra aðila gera það, samtök verslunarinnar eða afurðastöðvarnar, sláturleyfishafana, ég hef ekki séð að þeir tilkynntu neytendum að af þeirra hálfu væri verðstöðvun. Ég hef ekki séð að matvöruverslanir hafi tilkynnt einhverja verðstöðvun. Ég frétti af því gagnstæða, að verðhækkanir á kjöti, og einmitt innlendri framleiðslu, séu aldrei meiri en verið hafi nú á síðustu mánuðum. Hækkanir sem ekkert hafa skilað sér til framleiðenda. Það er því að ýmsu að hyggja þegar menn tala um heildarumgjörð þessarar greinar og matvælaframleiðslunnar í heild hvað þetta varðar. Menn skulu tala af gát og virðingu um hlut íslenskra sauðfjárbænda bæði í matvælaframleiðslu og í því að halda lágu verði og góðri vöru á markaði. Það eru aðrir sem taka þá skerfinn til sín að stórum hluta þegar verð til neytenda hækkar á þessum vörum.

Víkjum aftur að samningnum. Hann er umgjörð um starfsskilyrði sauðfjárræktarinnar til næstu ára. Ég gerði grein fyrir því í ræðu minni um þetta efni í gær að mörg þau atriði sem þarna er verið að semja um hefðum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs viljað hafa öðruvísi. Við höfum flutt mörg þingmál um stefnu okkar í landbúnaðarmálum og varðandi það að tryggja öflugan og fjölbreyttan landbúnað, öfluga búsetu í sveitum landsins og framboð á hollum og góðum vörum til neytenda. Við lögðum til og endurfluttum þá tillögu að Alþingi mundi kjósa nefnd, skipaða fulltrúum allra þingflokka, til að vera stjórnvöldum og Bændasamtökunum til samstarfs og ráðuneytis við mótun nýs grundvallar fyrir búvöruframleiðsluna og setja fram tillögur um ráðstafanir til að treysta byggð í sveitunum.

Það er alvarlegt hve byggðin er veik í mörgum sveitum. Það er mjög alvarlegt. Við ættum að mínu viti að vera að vinna að þjóðarsátt um að verja og efla byggðina frekar en að láta hana stöðugt vera á undanhaldi í þeirri þjóðfélagsþróun og við þá efnahagsstjórn sem ríkisstjórnin hefur rekið. Þess vegna fluttum við tillöguna um að þetta væri sameiginlegt átak. Það sem er ánægjulegt að sjá er að skoðanakannanir frá Gallup, sem voru birtar nú á dögunum, um viðhorf þjóðarinnar til landbúnaðar eru samhljóða áherslum okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Þjóðin er sammála því að okkur ber skylda til þess að standa vörð um og efla íslenskan landbúnað og búsetu og byggð í sveitum landsins.

Það eru stjórnvöld sem eru þessu kannski hvað andvígust eins og við höfum séð á tillöguflutningi þeirra og hvernig staðið hefur verið að málum undanfarið. Og verkin tala. Stórkostleg fækkun íbúa í mörgum byggðum landsins er hrein afleiðing af stefnu ríkisstjórnarinnar. Það væri hægt að fara um það mörgum orðum. Ég kem kannski að því síðar.

Einn þáttur hefur verið í umgjörð íslenskrar sauðfjárræktar og búvöruframleiðslu og var tekinn upp árið 1996 sem liður í því að búa atvinnugreininni stöðugleika og einnig til að tryggja til lengri tíma framboð á hollum og góðum landbúnaðarvörum. Það er heimild til ráðherra til að beita útflutningsskyldu á dilkakjöti til að taka af sveiflur í framleiðslunni og ná þar með jafnræði. Sú útflutningsskylda kom hart niður á mörgum bændum og eins og hæstv. landbúnaðarráðherra kom inn á í ræðu sinni þurfti að setja á milli 30–40% af framleiðslunni í útflutning. Þetta var samt bara heimild sem ráðherra hafði, það var hann sem bar hina pólitísku ábyrgð á því hvenær henni skyldi beitt að fenginni umsögn Bændasamtakanna og fleiri aðila.

Það er enginn sem óskar eftir því að endilega þurfi að standa að útflutningi með þessum hætti. Verulegt fjármagn var lagt í markaðsstarf erlendis á þessum vörum þó að mönnum hafi fundist það skila misjöfnum árangri. Þetta var eitt af þeim atriðum sem samtök bænda lögðu áherslu á að yrði áfram hluti af samningnum, þ.e. að ráðherra hefði heimild til að beita útflutningsskyldu ef þannig aðstæður sköpuðust að það væri talið mikilvægt og nauðsynlegt, bæði fyrir framleiðendur og neytendur. Ég legg áherslu á að það eru ekki síður langtímahagsmunir neytenda að hér ríki stöðugleiki hvað framleiðslu í sauðfjárrækt varðar.

Svo virðist vera sem stjórnvöld hafi ekki haft skilning á þessum þætti og eftir því sem komið hefur fram þá sögðu fulltrúar ríkisins í samninganefndinni að lokum að ekki yrði gerður samningur ef heimild til útflutningsskyldu yrði inni. Sauðfjárbændur stóðu þá frammi fyrir miklum vanda því að framleiðsluferlið er langt í sauðfjárræktinni, nokkur ár, og því mikilvægt að starfsumgjörð greinarinnar búi við festu til nokkurra ára þannig að framleiðendur viti hvað um er að ræða. Þeim var nauðugur einn kostur að semja undir þessum kröfum ríkisins. Engu að síður vöruðu þeir mjög við þessu og lögðu áherslu á að þó að þetta væri sett upp sem samningsmarkmið, að heimild til að beita útflutningsskyldu félli niður 1. júní 2009, yrði lagaheimildin áfram inni, heimildarákvæði til ráðherra til að beita því sem stýritæki í vissum neyðartilvikum. Svo virðist sem samninganefnd ríkisins, eða a.m.k. landbúnaðarráðuneytið, hafi fallist á þetta.

Við í landbúnaðarnefnd fengum bréf varðandi þetta mál, undirritað af nokkrum fulltrúum í samninganefndinni. Ég held að það sé mjög mikilvægt, af því að hæstv. ráðherra hefur borið brigður á að rétt sé með farið, að ég endurtaki þetta bréf. Það er jú visst áræði af fulltrúum bænda í samninganefndinni að senda frá sér þetta bréf til að það sé staðfest hver voru samningsmarkmið sauðfjárbænda og hvað ekki gekk eftir af því sem þeir töldu sig hafa vilyrði fyrir. Bréfið er stílað á hv. landbúnaðarnefnd, formanninn Drífu Hjartardóttur, og er dagsett 5. mars 2007. Í bréfinu segir, með leyfi forseta:

„Við undirrituð sem störfuðum í samninganefnd bænda um nýgerðan sauðfjársamning gerum eftirfarandi athugasemdir við frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum.

Við mótmælum harðlega þeirri breytingu sem kemur fram í 23. gr. frumvarpsins en þar segir: „Frá og með 1. júní 2009 fellur útflutningsskylda kindakjöts skv. 29. gr. laga nr. 99/1993 brott. Fram til 1. júní 2009 gilda ákvæði 3.–6. mgr. 29. gr. og 74. gr. laga nr. 99/1993, eftir því sem við á.““ — Áfram segir í bréfi frá fulltrúum í samninganefnd bænda:

„Eftir að samninganefnd bænda hafði fallist á“ — takið eftir orðalaginu, þeir áttu ekki annars úrkosta, þeim var stillt upp við vegg — „að útflutningsskylda kindakjöts skyldi falla niður frá og með 1. júní 2009 var alltaf samkomulag um að lagabreyting sem staðfesti þetta yrði lögð fram á haustþingi 2008 en ekki nú. Framan af var þetta ákvæði inni í samningstextanum“ — ég vek athygli á því, forseti, því þetta er allt öðruvísi en hæstv. ráðherra hefur greint frá — „en var fellt niður undir lokin eftir að lögfræðingur landbúnaðarráðuneytisins taldi það betra og mundi engu breyta þar sem fullt samkomulag væri um að þetta kæmi ekki fram fyrr en 2008. Nú bregður svo við að þetta er sett inn í lagatextann.“

Og áfram segir í bréfinu, með leyfi forseta:

„Í öllu kynningarferlinu var bændum greint frá þessu. Á þessum fundum voru annars vegar fulltrúar bænda og hins vegar stundum landbúnaðarráðherra eða aðstoðarmaður hans og tóku undir þetta sjónarmið eða mótmæltu ekki.“

Og lokaorðin í bréfinu frá fulltrúum bænda í samninganefndinni við ríkið eru:

„Við undirrituð mótmælum þessu harðlega og skorum á landbúnaðarnefnd Alþingis að sjá til þess að við áðurnefnd fyrirheit verði staðið.“

Undir bréfið rita fyrir hönd samninganefndar bænda þrír af fimm í nefndinni: Gunnar Sæmundsson, Jóhanna Pálmadóttir og Fanney Ólöf Lárusdóttir.

Ég tel að heimild til útflutningsskyldu eigi að vera inni og er sammála bændum hvað það varðar. En sama hvaða skoðun maður hefur á því þá ber manni samt að standa við þau fyrirheit og vilyrði og það heiðursmannasamkomulag sem gert er með þessum hætti. Það þarf þá a.m.k. að tilgreina hvers vegna það er ekki hægt. Ég tek því afdráttarlaust undir orð hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, sem hann hafði í umræðum í dag og um sama mál í gær, þar sem hann benti á að sauðfjárræktin leikur lykilhlutverk í atvinnulífi í mörgum byggðum og úrvinnslan og störf tengd henni skipta þar höfuðmáli. Fyrir neytendur skiptir það líka höfuðmáli að framleiðsluöryggi sé tryggt. Einn af þessum þáttum var heimildin til útflutningsskyldu til að tryggja jöfnuð ef sveiflur yrðu, sú heimild hefur verið til staðar síðan 1996. Það er enginn að fagna því að beita þurfi henni með þeim hætti að leiði til verðskerðingar en hún hefur samt verið hluti af þessari umgjörð.

Þess vegna leyfi ég mér að flytja hér tillögu sem er mjög lík þeirri tillögu sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson flutti í gær, hún lýtur að sama máli en er þó aðeins öðruvísi, með leyfi forseta:

Við 2. gr. frumvarpsins, þ.e. það sem lýtur að því að heimild til útflutnings gildi, þar komi tvær nýjar málsgreinar sem hljóði svo:

Landbúnaðarráðherra getur ákveðið að tiltekið hlutfall dilkakjöts skuli flutt á erlendan markað. Slíka ákvörðun skal aðeins taka ef ráðherra metur stöðu kjötbirgða, framleiðslu- og söluhorfur með þeim hætti að fyrirsjáanlegt sé verðhrun og afkomubrestur hjá sauðfjárbændum og að fengnu áliti Bændasamtaka Íslands. Slíka ákvörðun skal tilkynna fyrir 1. ágúst ef hún á að gilda fyrir sláturtíð að hausti og getur hún gilt fyrir allt að tólf mánaða framleiðslu- og sölutímabil.

Hafi landbúnaðarráðherra ákveðið útflutningshlutfall skv. 3. mgr. er sláturleyfishafa skylt að leggja til kjöt til útflutnings samkvæmt ákvörðun hans. Geri hann það ekki skal innheimta af honum gjald sem landbúnaðarráðherra ákveður og skal svara til mismunar á áætluðu heildsöluverði og viðmiðunarverði, sem miðast við meðalverð fyrir útflutt dilkakjöt í heilum skrokkum undanfarna tólf mánuði. Allir framleiðendur dilkakjöts — ég vek athygli á því, allir framleiðendur dilkakjöts — skulu taka þátt í þessum útflutningi eða sæta útflutningsuppgjöri fyrir sama hlutfall af framleiðslu sinni.

Þetta er þá breytingartillaga mín. Ég vek athygli á því að verið er að gera samning við alla sauðfjárbændur, alla sauðfjárframleiðsluna og þess vegna er mjög eðlilegt að allir sauðfjárbændur taki að sér og axli ábyrgð og skyldur og ávinning af samningnum. Áður var það eins og hæstv. landbúnaðarráðherra benti réttilega á að útflutningsskyldan gat komið misjafnt niður á bændum eftir því í hvers konar ramma innan sauðfjársamningsins þeir voru staddir. En með þessari tillögu er gert ráð fyrir að það sé jafnt yfir alla.

Ég vek líka athygli á því að með þessari heimild er líka hægt að grípa inn í afurðasölufyrirtækin, sláturhúsin, með því að þau eru þá öll orðin skyldug til þess að vinna saman með þessum hætti. Ég held reyndar að eitt af stóru vandamálunum hjá okkur nú sé hin gríðarlega samþjöppun sem orðin er í sláturhúsum í landinu. Það er búið að leggja af slátrun í heilum landshlutum. Á Vestfjörðum er ekkert sláturhús og víðar um land, t.d. á Austurlandi. Það er verið að flytja féð langar, langar leiðir í slátrun sem ekki er talið gott og auk þess sem ýmsir matarmenningarlegir þættir hverfa úr byggðunum ef slátrunin fer þaðan burtu. Fyrir utan atvinnu- og iðnaðarmöguleika.

Hæstv. ráðherra minntist á hagræðingu, það væri mikil hagræðing að því fækka sláturhúsum. Ég heyri bændur kalla eftir því og spyrja hvenær hagræðingin í sláturhúsunum komi til með að skila sér til þeirra. Þeim hefur verið lofað hinum og þessum verðhækkunum gegn því að sláturhúsunum þeirra verði lokað. Ég heyri marga bændur segja að það hafi nú farið heldur lítið fyrir því að þeir hafi fengið eitthvað af þeim hagræðingaraðgerðum.

Peningarnir sem landbúnaðarráðherra ráðstafaði til einstakra sláturhúsa til þess að loka, þeir hefðu kannski verið betur komnir beint í nýja atvinnustarfsemi. Tökum t.d. lokun sláturhússins á Kirkjubæjarklaustri. Ég held að það hafi verið röng aðgerð að fara að borga sláturhúsunum sérstaka peninga fyrir að loka sláturhúsinu á Klaustri. Ég held að það hafi ekki verið nein góð byggðaaðgerð. Ég segi bara alveg eins og er. Það getur hver haft sína skoðun á því. Og við stöndum kannski frammi fyrir enn þá meiri samþjöppun í sláturhúsa- og afurðastöðvum hér á landi.

Það má vel vera að menn finni fyrir því hagræðingarrök og að hægt sé reikna slíkt út. En ég er ekki viss um að þegar á heildina er litið þá sé hagsmunum neytenda og hagsmunum framleiðenda best borgið með því að hér séu bara eitt eða tvö sláturhús. Ég er ekki viss um það og er reyndar viss um að svo er ekki og það er sannfæring mín. Þessi umgjörð skiptir neytendur og framleiðendur líka máli. Að hér sé þannig umhverfi að hvorki komist á einokun né fákeppniskringumstæður sem mönnum finnst vera komið býsna langt nú þegar.

Það eru hvorki hagsmunir framleiðenda né neytenda að hér verði aukin fákeppni og einokun á þeim sviðum. Mönnum finnst nóg að í versluninni og ein ástæðan fyrir háu vöruverði er talin vera fákeppni. Það eru því mörg atriði sem hafa áhrif.

Virðulegi forseti. Í lokin vil ég ítreka að sú tillaga sem ég flyt nú er frábrugðin tillögu hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar sem var flutt hér í dag að því leyti til að ég tel að landbúnaðarráðherra eigi að bera hina pólitísku ábyrgð á þeirri aðgerð ef beitt er útflutningsskyldu þótt hann þiggi þar ráð og leiðbeiningar annarra aðila. En landbúnaðarráðherra eigi að bera ábyrgð á því og eins og eðlilegt er í samráði við bændasamtökin og það sé bara eðlilegur hluti af þeirri samningsumgjörð sem verið er að setja hér um starfsskilyrði sauðfjárræktarinnar.

Ég skora á hv. alþingismenn að hugsa sinn gang vel þegar tillagan kemur til atkvæðagreiðslu. Sauðfjárræktin skiptir svo gríðarlegu máli í byggða- og atvinnulegu tilliti með svo margþættum hætti. Hún skiptir neytendur líka gríðarlegu máli eins og hefur komið fram í nýjustu skoðanakönnunum. Við eigum að hlusta rækilega á ráð bænda sem lögðu þetta eindregið og afdráttarlaust til. Bændur hafa staðið við alla sína samninga eins og hæstv. landbúnaðarráðherra kom að hér áðan. Þeir hafa lagt sitt af mörkum þegar kallað hefur verið eftir framlagi þeirra til þjóðarsáttar. Eigum við ekki líka að hlusta á ráð þeirra um hvernig þeir telja að þessari grein og framleiðslu sé best borgið fyrir hagsmuni allrar þjóðarinnar, neytenda og framleiðenda? En ekki einhverjum skammsýnum stjórnmálamönnum eins og virðist hafa orðið ofan á hjá ríkisstjórninni sem telur sig vita betur hvað sé sauðfjárræktinni fyrir bestu, betur en það fólk sem þar er í forustu og leggur góð ráð til sem ríkisstjórnin ákveður að hafa að engu.