133. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[15:54]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að biðja hv. þm. Jón Bjarnason að skýra kannski betur fyrir mér breytingartillögu þá sem hann flytur og er efnislega í þá veru að áfram verði útflutningsskylda eða ráðherra heimilt að grípa til þess að skylda bændur til að flytja á erlendan markað tiltekið hlutfall af dilkakjöti. Mér finnst eiginlega vera þrennt sem kemur til álita í þessu og þarf að velta fyrir sér.

Í fyrsta lagi þá nær skyldan í dag til allra framleiðenda, líka þeirra sem ekki starfa samkvæmt þeim samningi sem bændasamtökin hafa við ríkið. Útflutningsskyldan gerir það því að verkum að bónda sem framleiðir kindakjöt án nokkurs stuðnings er gert skylt að flytja tiltekið hlutfall af framleiðslu sinni á erlendan markað. Með öðrum orðum þá er honum meinaður aðgangur að íslenskum markaði þó að hann sé á engan hátt tengdur kerfinu sem er tilefni til þess að grípa til skyldunnar.

Í öðru lagi spyr ég hv. þingmann hvort í tillögu hans um að hafa áfram útflutningsskyldu felist, ef hún verður samþykkt, að fjárhæðir í samningnum verði lækkaðar sem nemur þeim 300 millj. kr. sem settar voru inn í samninginn til þess að bæta bændum það tekjutap sem er áætlað að þeir verði fyrir vegna þess að aukin samkeppni á innlendum markaði mun væntanlega leiða til lægra verðs fyrir þá. Þannig að bændunum í raun og veru er bættur skaðinn af samkeppninni með þessum 300 millj. en neytendur njóta góðs af því.

Ég spyr því hv. þingmann ef hann ætlar að koma í veg fyrir samkeppnina hvort hann ætli þá að taka þessar fjárhæðir út úr samningnum.