133. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[15:56]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson notar nú orð sem ég nota ekki. Ég segi ekki að koma í veg fyrir samkeppni. Ég segi ekki útflutningsskylda. Ég tala hér um heimild til útflutningsskyldu. Á því er verulegur munur og þegar menn tala um þetta þá verða þeir að tala um það þannig að þeir skilji það.

Ég bendi á að þetta eru eindregnar tillögur bænda. Og þeir telja sig hafa þetta vilyrði alveg fram á síðasta klukkutíma samningslotunnar. Þannig að ég bendi á að það er eitt það mikilvægasta að maður stendur við vilyrði sem gefin eru í samningnum. Þeir hafa örugglega sín rök fyrir því. Ég dreg ekki í efa að þessir samningamenn, Gunnar Sæmundsson í Hrútatungu, Jóhanna Pálmadóttir á Akri og Fanney Ólöf Lárusdóttir á Klaustri, vita hvað þeir eru að segja.

Við erum hér fyrst og fremst að tala um útflutning. Að það sé heimild til hans og það er alveg rétt að í tillögu minni legg ég til að hann komi á alla. Þetta sé á vissan hátt félagsleg aðgerð. Það er alltaf þannig í félagslegum aðgerðum að einhverjum finnst á sig hallað persónulega og hann telur að hann hefði á einhverjum tímapunkti eða undir einhverjum kringumstæðum getað haft betur með því að standa utan félagslegrar ábyrgðar. Við þekkjum það alveg.

En ef við horfum á heildina þá er það jú í sjálfu sér félagshyggjan sem ber hópinn best fram. Það er það sem þarna er lagt til. Ég ítreka að ég tek mark á fulltrúum sauðfjárbænda sem leggja þetta til, þeir þekkja þessa grein mjög vel (Forseti hringir.) og þekkja líka markaðsaðstæður, ábyrgð og skyldur.