133. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[16:00]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er nú svo að samningsmarkmið og kröfur sauðfjárbænda lágu fyrir um að þeir vildu að heimild til útflutnings væri inni. Þegar sýnt var fram á að það gengi ekki upp, eins og ég hef rakið og get gert aftur, vildu þeir að hún yrði a.m.k. ekki felld úr lögum fyrr en haustið eftir þannig að menn gætu metið aðstæðurnar þangað til. Við erum samtímis að rýmka fyrir innflutningi á landbúnaðarvörum og það er eðlilegt að við látum þetta gerast í áföngum. Þetta eru eðlileg varnaðarorð og varnaðartillögur manna sem þekkja mjög vel til greinarinnar.

Hvort það eru 300 millj. kr. eða hvað, við erum ekki aðilar að samningnum. Mér finnst það mjög lítið að verja 30 eða 40 millj. kr. eða hvað það nú er í að styrkja nýliðun í landbúnaði, mér finnst það allt of lág upphæð og mér finnst upphæðin í samningnum í sjálfu sér ekkert há. Ég er ekki sammála þingmanninum í því að það séu ekki hagsmunir neytenda að standa vörð um öfluga íslenska sauðfjárrækt. Hann talar um þetta sem skatta á neytendur. Ég er ekki viss um að bændur séu sammála hv. þingmanni um að þessi stuðningur inn í samninginn sé hreinn skattur á neytendur. Ég er ekki viss um að bændur séu sammála þingmanninum í því. Þetta eru tillögur Félags sauðfjárbænda eða samningsaðila þeirra. Hvernig hefði farið með þessar 300 millj. kr.? Ég er ekki að semja hér. Ég er einungis að flytja eindregna áherslu samninganefndar eða Félags sauðfjárbænda sem ég styð.