133. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2007.

breyting á IV. viðauka við EES-samninginn.

648. mál
[17:45]
Hlusta

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Halldór Blöndal) (S):

Hæstv. forseti. Utanríkismálanefnd hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Martin Eyjólfsson og Nínu Björk Jónsdóttur frá utanríkisráðuneyti og Guðjón Axel Guðjónsson og Lárus Ólafsson frá iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti.

Þingsályktunartillagan er flutt til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 146/2005, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.

Í nefndinni var sérstaklega rætt um möguleika Íslands til að fá undanþágur frá tilteknum reglum framangreindra gerða vegna smæðar markaðarins og einangrunar. Iðnaðarráðuneytið skilaði nefndinni greinargerð um innleiðingu raforkutilskipunar í íslenskan rétt þar sem nánar er gerð grein fyrir aðdraganda að upptöku gerðanna í EES-samninginn, innleiðingu þeirra í íslenskan rétt og möguleikum Íslands á undanþágum frá einstökum ákvæðum gerðanna. Meiri hluti nefndarinnar og raunar nefndin öll leggur áherslu á að undanþáguheimildir gerðanna verði nýttar eins og kostur er fyrir íslenska raforkumarkaðinn. Innleiðing gerðanna kallar á lagabreytingar hér á landi.

Hv. þingmenn Össur Skarphéðinsson, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Jón Gunnarsson rita undir álitið með fyrirvara, en Steingrímur J. Sigfússon var fjarverandi afgreiðslu málsins.

Meiri hlutinn leggur til að málið verði samþykkt.